Byggir upp tískubransa í Lúxemborg

Gígja heldur fyrirlestur um fyrstu kynni og litaval fyrir Paperjam ...
Gígja heldur fyrirlestur um fyrstu kynni og litaval fyrir Paperjam Business Club í desember árið 2015.

Gia in Style er bæði útlitsráðgjafafyrirtæki fyrir einstaklinga og fyrirtæki, og líka umboðsskrifstofa fyrir fyrirsætur,“ útskýrir Gígja Birgisdóttir sem stofnaði fyrirtækið árið 2012.

Gígja var kosin fegurðardrottning Íslands árið 1986 og sama ár byrjaði hún að starfa fyrir Módelsamtökin og hún segir að Unnur Arngrímsdóttir sem stjórnaði þeim og Heiðar Jónsson, sem sá um þjálfunina fyrir Ungfrú Ísland keppnina, séu miklar fyrirmyndir sínar í því sem hún er að gera í dag. Árið 1989 fór hún í viðskiptanám við San Diego-ríkisháskólann í Bandaríkjunum, lauk námi þaðan með láði og fluttist síðan til Lúxemborgar þar sem hún starfaði í viðskiptaheiminum í fimmtán ár.

Elskar starfið sitt

„Seinasta starfið mitt í fjármálabransanum var „Assistant Vice-President of Compliance“ í bandarískum banka sem var mikil ábyrgðarstaða og vinnudagarnir langir sem er ekki mjög fjölskylduvænt. Maðurinn minn er lögfræðingur og alltaf í vinnunni svo þetta gekk hreinlega ekki upp. Ég var í áttatíu prósent starfi til að geta sinnt fjölskyldunni, en þegar ég var beðin um að koma aftur í hundrað prósent stöðu, ákvað ég að segja upp.“

Frá því að Gígja fluttist til Lúxemborgar hefur hana langað til að vinna við eitthvað tengt tískubransanum og hún sá tækifæri þar sem hægt var að nýta. Hún segir nálægð landsins við Belgíu, Frakkland og Þýskaland gera það að verkum að annaðhvort séu stórkostlegar tískusýningar með rauðum dregli og kampavíni þar sem allt sé innflutt, einnig fyrirsæturnar, eða sýningar þar sem allir gefa vinnu sína, fyrirsætunum ekkert leiðbeint og útkoman eftir því.

„Auðvitað er fullt af hæfileikaríku fólki hér í Lúxemborg; ljósmyndarar, hönnuðir, tónlistarfólk og fyrirsætur. Mér fannst að þau ættu að fá tækifæri til þess að sýna hæfileikana í sínu heimalandi og fá faglega þjálfun og leiðsögn.“

Gígja var ákveðin í að fara ekki aftur í fjármálabransann, svo hún settist niður, bjó til viðskiptaáætlun og sótti um leyfi til fyrirtækjareksturs.

„Núna vinn ég í rauninni meira en áður, því þegar maður rekur sitt eigið fyrirtæki er maður alltaf í vinnunni. En ég finn minna fyrir því og ég elska starfið mitt og get skipulagt tíma minn betur.“

Gígja fer yfir sýningarplanið með einni fyrirsætunni á Vol(t)age tískusýningu ...
Gígja fer yfir sýningarplanið með einni fyrirsætunni á Vol(t)age tískusýningu í júlí.

Að hjálpa hæfileikafólki

Áður en Gígja stofnaði fyrirtækið fannst henni rétt að fríska aðeins upp á reynsluna í tískubransanum. „Ég fór í nám til London og varð löggiltur útlitsráðgjafi eða „Certified Image Consultant“ frá London Image Institute og byrjaði fyrst með útlitsráðgjöfina. Það var strax nóg að gera, svo ég hafði lítinn tíma til að hugsa um fyrirsætuskrifstofuna. Ég tek einstaklinga af báðum kynjum í ráðgjöf en ég er einnig með fyrirlestra og námskeið fyrir starfsmenn fyrirtækja, og þá kemur sér vel að hafa innsýn í viðskiptaheiminn og vita hvernig á að hegða sér og hverju skal klæðast til að koma vel fyrir. Í vor var ég, ásamt samstarfskonu minni, með fyrirlestur fyrir nemendur á lokaári í Háskólanum í Lúxemborg sem mæltist svo vel fyrir að við verðum í framtíðinni með regluleg námskeið fyrir háskólann.“

Árið 2014 byrjaði Gígja með fyrirsætuhlið fyrirtækisins fyrir alvöru. „Ég var búin að undirbúa mig og safna fyrirsætum á skrá. Nú er allt komið á fullt og ég er með yfir hundrað manns á lista hjá mér. Það er nóg að gera, við höfum unnið mörg skemmtileg verkefni og það er margt spennandi fram undan,“ segir Gígja spennt.

„Takmarkið með fyrirsætuskrifstofunni er hjálpa til við að byggja upp tískubransann hér. Tískublöðin hér eru ekki eins og heima á Íslandi þar sem tískublöðin eru með innlent efni, unnið á Íslandi, með íslensku fólki. Ég vil sjá meira af því hér,“ segir Gígja ákveðin.

Gígja með sonum sínum Viktori Tý og Leo-thor við fermingu ...
Gígja með sonum sínum Viktori Tý og Leo-thor við fermingu þess eldri í apríl 2015.

Ein stór fjölskylda

Það skiptir Gígju miklu máli að fyrirsætuskrifstofan sé persónuleg og að fyrirsætunum líði eins og þær séu öll ein stór fjölskylda.

„Ég þekki alla sem eru á lista hjá mér og þau sem ég vinn mest með eru eins og börnin mín. Ein stúlkan byrjaði hjá mér með enga reynslu, en er núna orðin eftirsótt fyrirsæta og nokkuð þekkt hér í landi,“ segir Gígja greinilega stolt.

„Ég mæti alltaf á svæðið á hverri sýningu og sé um mitt fólk eins og Unnur gerði á sýningum Módelsamtakanna á Hótel Sögu, Esju eða Loftleiðum, sama hvað þær voru margar á dag. Krökkunum finnst æðislegt að maður sé til staðar og passi upp á að hár og skór séu í lagi og að þau fái að drekka og borða.“

Spes en samt ekki of spes

„Ég hef aðstöðu í París og er í sambandi við eina af stærstu módelskrifstofunum, en samkeppnin þar er rosalega hörð. Þar er ekki nóg að vera falleg, hávaxin og grönn til að komast áfram. Maður þarf að vera með sérstakt útlit og sterkan persónuleika, vera spes, en samt ekki of spes. Þótt sumar af mínum fyrirsætum vinni á alþjóðamarkaði og gangi mjög vel, komast þær ekki áfram í París. Parísarskrifstofunni leist vel á eina stúlku hjá mér um daginn, en báðu um að hún færi í megrun,“ segir Gígja og er greinilega ekki sammála.

„Maður hélt að viðmiðin væru að breytast eftir að lög voru sett um að fyrirsætur yrðu að hafa visst hlutfall af líkamsfitu. Í París þurfa þær að vera alla vega 175 cm á hæð, með axlir og helst mjög lítið annað. Bara eins og herðatré til að fötin falli vel í Haute Couture-tískusýningunum.“

Fyrirsætur í öllum stærðum og af öllum gerðum

„Ég myndi aldrei senda fyrirsætu í megrun. Mér finnst þær flottar eins og þær eru og þannig eiga þær að vera. Ég hef unnið mikið með tveimur búðum hérna og þær þurfa mjög ólíkar fyrirsætur. Í Courreges er fatnaðurinn í stíl sjöunda áratugarins og því mjög beinn. Þau nota fyrirsætur frá mér, ungar og grannar, sem bera þann stíl vel. Caroline Bliss er belgískt merki og þau þurfa eldri fyrirsætur með vöxt, segir Gígja.

„Ég hef rosalega gaman af tískusýningabransanum. Ég er svo stolt af krökkunum hvað þeir gera alltaf flottar sýningar að ég fæ gæsahúð. Það er svo gaman og gefandi að hjálpa fólki að komast áfram og sjá þegar því tekst vel upp,“ segir Gígja og ljómar. „Þetta er bara lítið fyrirtæki í Lúxemborg sem vinnur með hérlendu fólki, svarar Gígja, spurð hvort hún stefni á stærri markað utan landsteinanna. „Það gengur vel og er sífellt að ganga betur. Ef maður stendur sig vel og gerir góða hluti í Lúxemborg er það fljótt að fréttast. Næsta skref er að komast meira í innlendu tískublöðin og sýna þeim að það þurfi ekki að kaupa hæfileika að utan,“ segir Gígja að lokum og hvetur alla til að kíkja á Gia in Style á Facebook og Instagram.

Gígja var fyrirsæta fyrir auglýsingaherferð Black Death árið 1986.
Gígja var fyrirsæta fyrir auglýsingaherferð Black Death árið 1986.Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir