Bæjarins bestu færast til á nýju torgi í miðborginni

Hafnarstrætisreitur. Hugmynd að skipulagi. Pylsuvagninn verður væntanlega ekki þar sem …
Hafnarstrætisreitur. Hugmynd að skipulagi. Pylsuvagninn verður væntanlega ekki þar sem hér er sýnt heldur nær miðjunni. Spennistöðin fremst. Tölvuteikning/Landmótun

Reykjavíkurborg hefur auglýst nýtt deiliskipulag fyrir svokallaðan Hafnarstrætisreit. Þetta er einn þekktasti reitur borgarinnar en þar er m.a. að finna hinn vinsæla pylsuvagn Bæjarins bestu sem öðlaðist heimsfrægð þegar Bill Clinton Bandaríkjaforseti fékk sér þar pylsu um árið. Reiturinn hefur tekið breytingum því þar er að rísa nýtt hótel milli Tryggvagötu og Hafnarstrætis.

Baldur Ingi Halldórsson, framkvæmdastjóri Bæjarins bestu, segir að pylsuvagninn verði væntanlega færður aðeins til á reitnum. „Við reiknum með að hann verði færður 2-3 metra aftar,“ segir Baldur Ingi.

Núverandi vagn, sem er reyndar ekki vagn heldur skúrbygging, verður notaður áfram enda í toppstandi. „Við vonumst til að fá að byggja smávegis við hann en útlitið á að halda sér eins mikið og hægt er.“

Baldur Ingi er mjög ánægður með þær breytingar sem verða með nýju torgi og uppbyggingu í nágrenni þess. Loksins sé verið að byggja á ljótum og hrörlegum reitum í nágrenni vagnsins, sem hafi verið lítil prýði að í áratugi. „Þetta verður ekki bara malbikað stöðumælatorg eins og verið hefur. Við hlökkum mjög til þegar þessum framkvæmdum lýkur,“ segir Baldur Ingi.

Biðröð er við pylsuvagninn alla daga. Gamla spennistöðin sést í …
Biðröð er við pylsuvagninn alla daga. Gamla spennistöðin sést í bakgrunni, blámáluð. Nýja hótelið er í byggingu við hlið vagnsins. mbl.is/Árni Sæberg

Örtröð á góðviðrisdögum

Á góðviðrisdögum á sumrin hefur myndast mikil örtröð við pylsuvagninn, ekki síst vegna áhuga erlendra ferðamanna. Til að flýta fyrir afgreiðslu hefur verið komið fyrir færanlegum pylsuvagni við hlið hins. Vonast Baldur Ingi til þess að þetta fyrirkomulag fái að halda sér.

Í skýringum með deiliskipulaginu segir að lóðin Pósthússtræti 1, sem er í eigu Reykjavíkurborgar, verði felld niður. Þar verður gert ráð fyrir opnu svæði eða torgi með vandaðri hönnun og fallegum frágangi. Torgið verði hannað sérstaklega með það í huga að þjóna borgarbúum og gestum.

Afmörkuð er 36 fermetra lóð fyrir nýja spennistöð á horni Pósthússtrætis og Tryggvagötu. Núverandi spennistöð er innar á lóðinni og því er um tilflutning að ræða. Hönnun stöðvarinnar skal vanda sérstaklega og gert er ráð fyrir að útlit hennar taki mið af spennistöðvum sem Guðjón Samúelsson teiknaði, t.d. á Vesturgötu 2.

Hliðar spennistöðvarinnar eiga að vera „lifandi“ þannig að nota megi þær fyrir upplýsingar. Óheimilt verður að vera með auglýsingar á veggjum spennistöðvarinnar.

Tillöguna að nýju deiliskipulagi má finna á heimasíðu Reykjavíkurborgar. Athugasemdafrestur er til og með 7. desember nk.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK