Tíu þúsund vildu vinnu hjá WOW

Alls bárust 10.000 umsóknir um störf hjá WOW air í ...
Alls bárust 10.000 umsóknir um störf hjá WOW air í fyrra.

„Í fyrra réðum við 540 manns til starfa úr þessum 10.000 manna hópi eða rúmlega 5% þeirra sem sóttu um,“ segir Jónína Guðmundsdóttir, mannauðsstjóri WOW air. Hún segir að umsóknir um starf sem berast frá útlöndum séu ekki í þessum tölum.

„Flugliðastarf er það starf sem er eftirsóttast, en að auki fengum við um 3.000 almennar umsóknir um starf hjá okkur. Það leynir sér ekki að það er mikill áhugi á að starfa hjá fyrirtækinu.“

Jónína segir að hluti þessa áhuga sé að ferðaþjónustan í landinu sé á mikilli uppleið. „WOW air gengur vel, ímynd okkar er góð og fyrirtækið er áberandi á markaðnum. Það hefur líka spurst út að þetta sé skemmtilegur vinnustaður. Svo hefur alltaf verið til staðar mikill áhugi á flugi og störfum við flug hér á landi og það hefur sitt að segja .“

Breiður hópur umsækjenda

Hún segir að fyrirtækið fái umsóknir frá breiðum hópi fólks. „Við fáum umsóknir frá fólki á öllum aldri. Meðalaldur starfsmanna er fremur lágur hjá okkur og aldur umsækjenda ber keim af því. Hins vegar eru starfsmenn WOW air á öllum aldri, frá 22 ára til sjötugs.“

Jónína segir að almennt gangi vel að ráða í stöður hjá fyrirtækinu, þyngra sé varðandi ráðningar vegna starfsemi á vegum flugfélagsins í Leifsstöð. „Starfsmenn við innritun og á flughlaði eru ekki starfsmenn okkar heldur starfsmenn Airport associates, sem sjá um þessi verkefni fyrir okkar hönd. Hins vegar tókum við nýlega yfir afmarkaðan þátt af þjónustu við vélar okkar í Leifsstöð og það hefur verið krefjandi að manna sum af þeim störfum. Það er greinilega mikil samkeppni um fólk á Suðurnesjum.“

Verða 1.200 í árslok

Jónína segir að nú standi ráðningartímiabil fyrir sumarið yfir. „Við erum á kafi í ráðningum núna og það stefnir í að starfsmenn verði rúmlega 1.100 í sumar og ég býst við að heildar starfsmannafjöldi verði nær 1.200 í árslok.

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir