Geta sett mörk á gagnamagnið

Á heimasíðu Póst- og fjarskiptastofnunnar kemur fram að ákvæði nyju ...
Á heimasíðu Póst- og fjarskiptastofnunnar kemur fram að ákvæði nyju reglnanna setja skilyrði um lágmarksmörk sem eru „rúm og eiga að duga fyrir alla venjulega netnotkun, tölvupóst, lestur vefsíðna og fréttaveitna.“ AFP

Reikigjöld farsímanotenda í löndum EES hafa nú lagst af sem hefur í för með sér mikla verðlækkun fyrir þá sem ferðast í Evrópu og vilja nota símann sinn, bæði til símtala og til að fara á netið. Með nýju reglunum, sem heita á ensku Roam like home, geta notendur í venjulegri notkun farið um EES svæðið án þess að borga hærra verð fyrir að vera í útlöndum.

Vert er að taka fram að þó svo að öll lönd Evrópusambandsins falli undir EES svæðið á það alls ekki öll lönd Evrópu. Sem dæmi þá gilda nýju reglurnar ekki fyrir ferðalanga í Færeyjum, Grænlandi eða Sviss.

Fyrirtækin geta sett mörk á gagnamagnið

Síðan þurfa notendur að hafa í huga að með nýju reglunum hefur hvert og eitt símafyrirtæki heimild til að setja mörk á hve mikið gagnamagn má nota erlendis samkvæmt innanlandskjörum. Síminn og Vodafone hafa ákveðið að virkja ekki þessar reglur að svo stöddu en hjá Nova bætist 1,11 kr á hvert MB við það gagnamagn sem er eftir af pakka viðskiptavinar eftir að hann fer yfir ákveðið magn.

Magnið fer eftir hvort að viðskiptavinur er í áskrift eða frelsi og eftir stærð netpakkans sem hver og einn viðskiptavinur hefur valið sér. Á heimasíðu Nova má sjá sem dæmi að ef notandi er með 10 GB netpakka í áskrift getur hann notað 5,3 GB án aukakostnaðar.

Á heimasíðu Póst- og fjarskiptastofnunnar kemur fram að ákvæði nyju reglnanna setja skilyrði um lágmarksmörk sem eru „rúm og eiga að duga fyrir alla venjulega netnotkun, tölvupóst, lestur vefsíðna og fréttaveitna.“ En ef farið er yfir þessi mörk er farsímafyrirtækinu heimilt að innheimta reikiálag sem nú nemur að hámarki 1.110,91 kr. fyrir hvert GB.

Þarf ekki að virkja neitt

Roam like home virkar sjálfkrafa þegar að notandi er staddur í landi þar sem reglurnar eru virkar í. Ekkert þarf að virkja og síminn virkar eins og notandinn sé heima hjá sér á Íslandi.

En eins og fyrr segir eiga nýju reglurnar aðeins við um þau lönd sem eru í Evrópska efnahagssvæðinu eða EES en þau eru 31 talsins. Þrettán lönd sem eru í Evrópu eru þó ekki í EES og þar munu farsímanotendur enn greiða sömu gjöld og áður. Þau lönd eru Albanía, Andorra, Bosnía/Hersegóvína, Færeyjar, Grænland, Makedónía, Moldóva, Rússland, San Marínó, Serbía, Svartfjallaland, Sviss og Úkraína.

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir