Atvinnuþátttakan í allra hæstu hæðum

Hagfræðingur ASÍ segir að atvinnuþátttaka geti vart verið meiri.
Hagfræðingur ASÍ segir að atvinnuþátttaka geti vart verið meiri. Eggert Jóhannesson

Atvinnuþátttaka er með allra mesta móti á vinnumarkaðinum í sumar og hefur sjaldan mælst meiri en í síðast liðnum júnímánuði samkvæmt mánaðarlegum tölum Hagstofunnar.

Vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar sem birt var í gær leiðir í ljós að 205.800 manns á aldrinum 16-74 ára voru að jafnaði á vinnumarkaði í júní, sem jafngildir 85,5% atvinnuþátttöku. Af þeim voru 201.100 starfandi og 4.700 án vinnu og í atvinnuleit.

2,3% atvinnuleysi

Hlutfall starfandi af mannfjölda var 83,5% og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli var 2,3%, samkvæmt rannsókn Hagstofunnar.

Eins og fram hefur komið hér í blaðinu er atvinnuþátttakan á Íslandi á undanförnum misserum með því allra mesta í öllum aðildarlöndum OECD. Fram kemur í niðurstöðum Hagstofunnar að samanburður mælinga fyrir júní á þessu ári og í sama mánuði í fyrra sýnir mjög litlar breytingar milli ára. „Atvinnuþátttaka jókst lítillega eða um 0,3 prósentustig. Fjöldi starfandi jókst um 4.700 manns og hlutfall starfandi af mannfjölda hækkaði um 0,2 stig. Staða atvinnuleysis er svipuð á milli ára, en atvinnulausir voru í júní 2017 um 300 fleiri en í júní 2016 og hlutfallið nánast það sama,“ segir í frétt Hagstofunnar.

Komið að hámarkinu?

Þessar tölur sýna svipaða þróun og skráð atvinnuleysi hjá Vinnumálastofnun en í júní var það 1,8% og hafði aðeins minnkað um 0,1

prósentustig frá maí og var örlitlu minna en í júnímánuði í fyrra.

Þetta vekur upp þá spurningu hvort atvinnuþátttakan sé komin að mögulegu hámarki á vinnumarkaðinum en hún er nú þegar orðin meiri en í seinustu uppsveiflu í hagkerfinu og eins hvort við því megi búast að atvinnuleysið fari mikið neðar á vinnumarkaðinum og sé mögulega að ná einhverju ,,náttúrulegu“ lágmarki, þrátt fyrir spár um áframhaldandi kröftugan hagvöxt og uppgang á flestum sviðum.

,,Atvinnuþátttakan er orðin það mikil að það er kannski ekki hægt að ætla að hún geti orðið mikið meiri. Mikið innflæði starfsfólks erlendis frá segir okkur að það er orðinn skortur,“ segir Henný Hinz, hagfræðingur ASÍ.

Hagstofan

Sveigjanleiki vinnumarkaðarins og minnkandi spenna

Í nýuppfærðri efnahagsspá Arion banka er því spáð að draga muni úr launaþrýstingi, þrátt fyrir lítið atvinnuleysi, sökum sveigjanleika vinnumarkaðar og minnkandi

spennu í hagkerfinu. Í Þjóðhagsspá Íslandsbanka sem birt var í júlí segir að atvinnuleysi virðist vera að ná lágmarki, það sé nú með því minnsta sem mælst hefur, og atvinnuþátttaka hafi sjaldan verið meiri. Gerir greiningardeild bankans ráð fyrir að það verði 2,5% af vinnuafli í ár og 2,7% á næsta ári.

Miklar árstíðabundnar sveiflur einkenna vinnumarkaðinn og birtir Hagstofan einnig leiðréttar niðurstöður fyrir áhrifum árstíðasveiflna. Þá kemur í ljós að skv. árstíðaleiðréttingu var fjöldi fólks á vinnumarkaði 197.600 í júní, sem jafngildir 82,6% atvinnuþátttöku. Atvinnulausum fækkaði um 600 manns frá áætluðum fjölda atvinnulausra í maí. Leiðrétt hlutfall starfandi fólks í júní 2017 var 80,5%, sem er litlu lægra en í maí eða sem nemur 0,2 stigum. ,,Þegar horft er til síðustu sex mánaða sýnir leitni vinnuaflstalna að þær nánast standa í stað hvort sem litið er til atvinnuleysis eða starfandi fólks,“ segir þar.

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir