Vilja breyta eignarhaldi á flugvellinum

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair, Elín Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Isavia, og Skúli ...
Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair, Elín Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Isavia, og Skúli Mogensen, forstjóri Wow air, tóku þátt í pallborðsumræðunum. mbl.is/Golli

Forstjórar Icelandair og WOW air ræddu framtíðarhorfur ferðaþjónustu og flugrekstrar í pallborðsumræðum á ferðaþjónusturáðstefnu Landsbanks í dag. Þeir sammæltust um að breyta þyrfti eignarhaldi á Keflavíkurflugvellinum svo að unnt yrði að halda í við stóraukinn straum ferðamanna og tengifarþega. 

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair, sagði að það truflaði þátttöku Isavia í uppbyggingu flugvallarins að vera í ríkiseigu, leikreglurnar væru öðruvísi en ef það væri einkafyrirtæki. Í sama streng tók keppninautur hans. 

„Tvímælalaust, það væru mjög jákvætt að fá erlendan aðila með góða þekkingu,“ sagði Skúli Mogensen, forstjóri og stofnandi WOW air.  

Elín Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Isavia, tók einnig þátt í pallborðsumræðunum. Hún sagði að Isavia hefði hagað sér eins og einkafyrirtæki að sumu leyti en að mikilvægara væri að fá meiri þekkingu inn í fyrirtækið. 

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair, ásamt Skúla Mogensen, forstjóra Wow air.
Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair, ásamt Skúla Mogensen, forstjóra Wow air. mbl.is/Golli

„Keflavík uppseld“

Spurður um áhættuþætti tengda flugiðnaðinum á Íslandi sagði Björgólfur að Isavia þyrfti að hugsa meira um viðskiptavininn. „Það slæma við flugvöllinn eru þrengslin, það er ekki nóg að setja bara upp aðstöðu fyrir flugvélar.“

Elín viðurkenndi a stundvísin hefði ekki verið nægilega góð upp á síðkastið. Þjónustukannanir væri á niðurleið og Isavia þyrfti að taka sig á í þeim efnum. 

Þá nefndi Skúli að eitt stærsta vandamálið hafi verið að ekki hafi fyrr verið hugað að því að gera flugvöllinn að miðstöð fyrir tengiflug. 

„Við teljum að miðað við okkar vaxtaráform sé enginn vöxtur að fara að eiga sér stað eftir 2020, þá er flugvöllurinn sprunginn. Það verður vöxtur á næsta ári og 2019 en eftir það er Keflavík uppseld.“

Enn fremur sagði Skúli að þegar WOW air bætti við áfangastöðum væri það gert til að tengja farþega yfir hafið, enginn af nýju áfangastöðunum stæðu undir sér ef ferðirnar væru aðeins til og frá Íslandi. 

Skúli Mogensen, forstjóri WOW air.
Skúli Mogensen, forstjóri WOW air. mbl.is/Golli

Ferðamannastaðir verði tæknivæddir

Borin var upp spurning um hvað mætti betur fara hjá stjórnvöldum í ferðamálum. Skúli sagði að það væri honum með öllu óskiljanlegt hvers vegna ekki væri verið að nýta tæknina betur á helstu ferðamannastöðunum. „Það veit enginn hvort það séu 50 rútur að keyra að Geysi eða 5. Eitt besta dæmið er bláa lónið, þeir tóku upp bókanir á netinu og það hefur gengið mjög vel.“ 

Björgólfur sagði vöntun á stefnumörkun af hálfu stjórnvalda. „Reykjavíkurflugvöllur er til dæmis kominn í enn eina nefnd. Til hvers? Það er til þess að ekki þurfi að taka ákvörðun.“

Greining Landsbankans á íslenskri ferðaþjónustu

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group.
Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group. mbl.is/Golli
mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir