Auglýsa stöðu fréttaritstjóra Vodafone

Höfuðstöðvar Vodafone við Suðurlandsbraut.
Höfuðstöðvar Vodafone við Suðurlandsbraut. mbl.is/Ófeigur

Stjórnendur Vodafone og 365 héldu nú í morgun fund með starfsfólki 365 vegna kaupa Vodafone á stórum einingum 365 sem gengu í gegn í dag. Um er að ræða fjölmiðla eins og Stöð 2, Stöð 2 Sport, Bylgjuna, FM957, Xið, vísir.is, fréttadeild og auglýsinga- og áskriftasölu. Eftir mun hins vegar standa Fréttablaðið og Glamour. Þá mun Fréttablaðið stofna nýjan vef undir nafninu frettabladid.is.

Guðfinnur Sigurvinsson, samskiptastjóri Vodafone, staðfestir við mbl.is að fréttaritstjórastaða hjá nýrri fréttadeild Stöðvar 2, Bylgjunnar og vísis.is hjá Vodafone verði auglýst á næstunni, en áður gegndi Kristín Þorsteinsdóttir þeirri stöðu yfir öllum miðlum 365 sem útgefandi og aðalritstjóri. Í samtali við mbl.is staðfestir Kristín að hún muni áfram gegna þeirri stöðu hjá Fréttablaðinu eftir að kaupin eru gengin í gegn og fram að þeim tíma sem nýr fréttaritstjóri verður ráðinn hjá Vodafone mun hún einnig vera aðalritstjóri Bylgjunnar, Stöðvar 2 og visis.is.

Fyrst um sinn verða nýjar fréttadeildir Vodafone til húsa í Skaftahlíð þar sem þær hafa verið innan 365, en fimmta hæðin á höfuðstöðvum Vodafone var tekin frá vegna samrunans og mun með tíð og tíma starfsemi færast þangað yfir.

Höfuðstöðvar 365.
Höfuðstöðvar 365. mbl.is/Ómar Óskarsson

Í dag eru þau Kolbeinn Tumi Daðason og Hrund Þórsdóttir aðstoðarritstjórar og eru annars vegar yfir visi.is og hins vegar fréttadeild Stöðvar 2. Samkvæmt Guðfinni verður allt óbreytt varðandi stöður hjá miðlunum við kaupin og yfirfærsluna til Vodafone.

Kjartan Hreinn Njálsson og Ólöf Skaftadóttir hafa verið aðstoðarritstjórar hjá Fréttablaðinu og munu að sögn Kristínar áfram starfa sem slíkir hjá blaðinu. Þá hefur Sunna Karen Sigurþórsdóttir verið ráðin sem aðstoðarritstjóri og mun stýra nýjum vef, frettabladid.is, en þar verða nokkrir fastir blaðamenn starfandi.

Í kaupsamningnum var ákvæði um samstarf milli Fréttablaðsins og visis.is um að vefmiðillinn fengi efni frá blaðinu á morgnana næstu tvö árin. Guðfinnur staðfestir að svo verði áfram, en auk þess mun nýr vefur Fréttablaðsins notast við efni úr blaðinu líka. Eftir tvö ár verði svo skilið alveg á milli fréttadeildanna.

Hjá Vodafone hefur svo Björn Víglundsson verið ráðinn sem framkvæmdastjóri nýs sviðs hjá Vodafone sem heitir Miðlar innan Fjarskipta og tekur við öllum miðlum 365 sem keyptir eru. Mun undir hann auk þess heyra innlend dagskrárgerð sem Vodafone áformar að styðja mikið.

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir