Lítið sofið í marga daga

Jón Gerald Sullenberger, eigandi Kosts, á ekki von á því ...
Jón Gerald Sullenberger, eigandi Kosts, á ekki von á því að stofna aðra verslun. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Maður á aldrei að segja aldrei en ég á nú ekki von á því,“ segir Jón Gerald Sullenberger, í samtali við mbl.is, aðspurður hvort hann hafi hug á því að stofna nýja verslun. Hann segist ekki hafa haft tíma til þess að hugsa um hvað hann taki sér fyrir hendur næst.

Margmenni safnaðist saman í Kosti í gær og segir Jón einnig mikið að gera í dag en nú stendur yfir rýmingarsala. „Það er ekki búið að sofa mikið í marga daga,“ segir Jón sem augljóslega er mikið niðri fyrir.

Jón reiknar með að verslunin verði opin eitthvað fram í desember en hann tilkynnti á föstudag að henni yrði lokað. „Þetta er svo óvíst og gerðist allt svo snöggt. Þetta var ekki planað, langt frá því.“

Rýmingarsala stendur yfir í Kosti og hafa margir nýtt sér ...
Rýmingarsala stendur yfir í Kosti og hafa margir nýtt sér hana. mbl.is/Kristinn Magnússon

Breytt rekstrarumhverfi eftir komu verslunarinnar Costco til landsins er ástæða lokunar verslunarinnar. Kostur hefur stundað viðskipti við Costco í mörg ár. Jón heldur því fram að ástæða komu Costco sé velgengni Kosts með þeirra vörur. „Við eiginlega markaðsettum vörurnar fyrir þá hérna á Íslandi og ég held bara að þeir hafið verið að fylgjast með okkur.“

Margir tryggir kúnnar

Að sögn hefur verslunin marga trygga kúnna. „Stór hluti af starfsfólkinu okkar er búið að vera hérna frá því við opnuðum búðina. Við vorum eins og ein stór fjölskylda hérna,“ segir Jón. 

Yfir 100 manns hafa sent Kosti og Jóni kveðjur á Facebook-síðu verslunarinnar.

Hér má líta nokkrar þeirra:

„Þetta er skelfilegt Costco er fínt en þeir eru með meira af vörum frá Evrópu en frá USA margt sem maður fær bara í Kosti og Kostur er líka skemmtileg og björt verslun.“

„Mikið finnst mér þetta leiðinlegar fréttir og á eftir að sakna ykkar! Ég þakka fyrir mig og son minn sem hefur verið svo heppinn að vinna hjá ykkur undanfarin ár.

„Leiðinlegt að missa góða verslun með góða þjónustu og gott starfsfólk, af markaðnum. Kærar þakkir fyrir góða þjónustu.“

„Costco drap Kost.“

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir