Skúli Mogensen Markaðsmaður ársins

Skúli tók við verðlaununum úr hendi forseta Íslands.
Skúli tók við verðlaununum úr hendi forseta Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skúli Mogensen, forstjóri WOW air er Markaðsmaður ársins 2017, en það var samhljóða álit dómnefndar ÍMARK, samtaka markaðsfólks á Íslandi, sem veitti Markaðsverðlaunin 2017 á Kjarvalstöðum í dag. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhenti Skúla verðlaunin.

Verðlaunin eru veitt þeim einstaklingi, sem þykir hafa sýnt framúrskarandi árangur í markaðsstarfi á líðandi ári, en við valið er leitast við að fá sem fjölbreyttastar skoðanir úr atvinnulífinu.

Í tilkynningu frá ÍMARK kemur fram að það megi með sanni segja að WOW air sé markaðsdrifið fyrirtæki þar sem allar aðgerðir fyrirtækisins séu grundvallaðar á þörfum markaðarins og settar fram með ferskum og líflegum hætti sem skapði mjög fljótt öfluga samkeppni á flugmarkaði.

„Skúli er sannur frumkvöðull og hefur náð gríðarlega miklum árangri með vörumerki WOW air og vaxið hratt á markaði þar sem samkeppni er hörð. Því hefur það kallað á mikla greiningarhæfni og hæfileika til að skilja markaðinn og aðgreina sig frá öðrum fyrirtækjum,“ segir meðal annars í tilkynningunni, en WOW air var var stofnað í nóvember árið 2011 og fór í jómfrúarflug sitt í maí 2012. 

„Skúli hefur stýrt félaginu með hugrekki, krafti og sterkri markaðsnálgun að leiðarljósi í fyrirtæki sem býður ódýrt flug til vinsælla áfangastaða í Evrópu, Norður-Ameríku og Asíu, allan ársins hring. Flugfélagið hefur vaxið á ótrúlegum hraða frá stofnun þess og fjöldi gesta vaxið jafnt og þétt frá fyrsta fluginu 2012.“

Fram kemur að WOW air hafi árið 2013 flogið með yfir 400 þúsund farþega en í ár sé reiknað með því að þeir verði hátt í 3 milljónir.

Þá er innri markaðssetning WOW sögð mjög stór hluti af drifkrafti fyrirtækisins og það sé augljóst að stjórnendur geri sér grein fyrir mikilvægi þess að hafa ánægt starfsfólk sem skili sér í ánægðum viðskiptavinum.

Einnig er tekið fram að Skúli sé einn af stofnendum WOW Cyclothon, árlegri boð-hjólreiðakeppni þar sem hjólað er hringinn í kringum landið til styrktar góðu málefni. Keppnin sé dæmi um hugmyndaauðgi og drifkraft hans en hún hefur vaxið samhliða WOW air.

Dómnefndin í ár var skipuð fólki úr íslensku atvinnulífi. Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar var formaður dómnefndar. Andri var jafnframt kjörin Markaðsmaður ársins 2015, Halla Helgadóttir framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar, Andrés Jónsson eigandi og stofnandi Góðra samskipta, María Hrund MArinósdóttir, formaður stjórnar ÍMARK, Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri, Ólafur Þór Gylfason, framkvæmdastjóri MMR, Elín Helga Sveinbjörnsdóttir og Jón Þorgeir Kristjánsson, framkvæmdastjóri ÍMARK.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK