„Var aldrei í boði að gefast upp“

Sigurður Hilmarsson, forstjóri Siggi's.
Sigurður Hilmarsson, forstjóri Siggi's. Ljósmynd/Sigurður Hilmarsson

„Þetta byrjaði að ganga vel svona 2013-2014. Þá fór að vera gangur í þessu,“ segir Sigurður Hilmarsson, forstjóri skyrframleiðandans Siggi's, í samtali við mbl.is spurður um rekstur fyrirtækisins en það var selt til franska mjólkurfyrirtækisins Lactalis. Sigurður segir að það sem valdið hafi straumhvörfum hafi verið breytt umræða um hollt mataræði þegar farið var að beina sjónum í auknum mæli að neikvæðum áhrifum sykurs.

Frétt mbl.is: Skyrið hans Sigga í franska eigu

Sigurður segir að hann hafi verið mjög heppinn með þolinmóða og góða fjárfesta sem sýnt hafi því skilning að það tæki tíma að byggja upp reksturinn. Þannig hafi Siggi's ekki farið að skila hagnaði fyrr en árið 2015. „Þeir voru mjög þolinmóðir og veittu mér tækifæri til þess að byggja upp vörumerkið akkúrat eins og ég vildi hafa það. Byggt á gildum sem ég taldi vænlegust til lengri tíma litið. Ekki einungis til skamms tíma litið.“

Lögð var áhersla strax í byrjun á að hafa framleiðsluna nánast lausa við sykur. Fyrst í stað seldi Sigurður skyrið sitt á bás á markaði í Manhattan í New York en fékk svo inni í rótgróinni ostabúð í borginni. Hann þekkti konu sem starfaði í búðinni sem hjálpaði honum að koma framleiðslunni á framfæri. Sigurður fór upphaflega til náms í Bandaríkjunum og var farinn að starfa við ráðgjafastörf sem hann fann sig ekki almennilega í.

Viðbrögðin voru einfaldlega of góð

Sigurður bjó fyrst til skyr um jólin 2004. Skyrgerðin var þá meira áhugamál en þegar stjórnendur ostabúðarinnar sögðust reiðubúnir að selja skyrið hans og einn af prófessorunum hans sagðist tilbúinn að fjárfesta í hugmyndinni ákvað Sigurður að gera hana virkilega að veruleika og starfa við hana. „Ég var kominn með fyrstu búðina sem keypti vöruna og fyrsta fjárfestinn svo það var ekki eftir neinu að bíða.“

Spurður hvort honum hafi einhvern tímann ekkert litist á blikuna og verið við það að gefast upp á þessu á meðan ekki gekk nógu vel segir Sigurður: „Þetta er náttúrulega mjög persónulegt ferðalag. Auðvitað efast maður stundum en fyrir mér var það í raun aldrei í boði að gefast upp. Maður lærir auðvitað bara og þetta er sá mesti skóli sem ég mun nokkurn tímann ganga í gegnum. Maður lærir gríðarlega mikið á þessu.“

Gengið hafi á ýmsu í rekstrinum á sínum tíma en viðbrögðin hafi einfaldlega verið of góð við framleiðslunni auk þess sem hann hafi haft trú á verkefninu og fjárfestarnir sýnt því þolinmæði og skilning. „Þannig að það var margt sem gerði það að verkum að maður hélt í vonina. Síðan hafa síðustu þrjú árin verið mjög góð. Þangað til vorum við aðallega að selja til heilsuvöruverslana en síðan hefur þetta farið meira í almennar búðir.“

Straumhvörf vegna umræðu um sykur

Þegar umræðan hafi farið að snúast um að sykur væri aðalóvinurinn þegar kæmi að heilsufarsmálum en ekki fitan hafi Siggi's verið í góðri stöðu og fyrirtækið fengið aukna athygli. Spurður hver sé lykillinn að því að markaðssetja vöru í Bandaríkjunum segir hann að fyrst og fremst þurfi auðvitað að vera með góða og vel hannaða vöru. Mikilvægt sé að vera á staðnum ekki síst vegna þess að það þurfi ítrekað að vekja athygli á sér.

„Þú færð kannski nei fyrst. Síðan kemurðu aftur og þá segja þeir jafnvel kannski og svo framvegis. Það tekur einfaldlega tíma að byggja upp áhuga og traust. Ég mætti á allar sýningar og slíkt, þó að það væru ekki miklir möguleikar á að það skilaði árangri. Ég lagði líka alltaf áherslu á það að það stæðist allt sem talað væri um. Ef einhver vörubíll ætti að koma á ákveðnum tíma þá gengi það eftir. Það skipti miklu máli,“ segir Sigurður.

Spurður um framhaldið segir hann að fyrirtækið verði í raun rekið í óbreyttri mynd. Hann verði áfram forstjóri og aðrir stjórnendur haldi áfram. Sama með annað starfsfólk. Það hefði verið mikilvægt atriði. Margir hafi sýnt fyrirtækinu áhuga en samið hafi verið við Lactalis vegna þess að þeir leggi mikla áherslu á gæði. „Ég held að þeir eigi eftir að gera góða hluti í þeim málum með okkur. Ég tel ekki að þeir muni stytta sér einhverja leið í þeim efnum.“

Ljósmynd/Siggi's
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK