Styrkþegar geta flutt starfsemina að vild

AFP

Þegar íslensk nýsköpunarfyrirtæki hljóta styrk frá Tækniþróunarsjóði eru engin skilyrði sett um að höfuðstöðvar þeirra verði áfram á Íslandi. Ríkissjóður getur þannig orðið af skatttekjum sem eru tilkomnar að hluta vegna styrkjanna. 

Nýlega var greint frá því að augn­lyfjaþró­un­ar­fyr­ir­tækið Ocul­is myndi flytja höfuðstöðvar sínar til Lausanne í Sviss eftir að hafa tryggt hlutafjáraukningu upp á 2.100 milljónir króna frá alþjóðlegum vaxtarsjóðum.

Rannsóknar- og þróunarstarfsemi Oculis verður eftir sem áður á Íslandi en afkoma fyrirtækisins verður skattlögð í Sviss. Félagið hafði fengið styrki frá Tækniþróunarsjóði, sér í lagi öndvegisstyrk Tækniþróunarsjóðs sem félaginu var veittur í ársbyrjun 2017.

Sömu sögu er að segja af íslenska líftæknifyrirtækisins Zymetech sem var keypt af sænska fyrirtækinu Enzymatica AB árið 2016 en hélt áfram rannsóknarstarfi á Íslandi. Þá flutti fyrirtækið Mint Solutions höfuðstöðvar sínar til Hollands árið 2014. Bæði höfðu þau fengið styrk úr Tækniþróunarsjóði. 

Hallgrímur Jónasson, forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar Íslands, Rannís, staðfestir við mbl.is að engin skilyrði séu um höfuðstöðvar starfseminnar. Hann segir jafnframt að ekki liggi fyrir tillögur um breytingar á úthlutunarskilyrðum sjóðsins.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir