Dýrt fyrir Facebook að gæta öryggis Zuckerbergs

Mark Zuckerberg.
Mark Zuckerberg. AFP

Þó svo að Mark Zuckerberg, stjórnandi Facebook og fimmti ríkasti maður heims samkvæmt lista Forbes, þiggi ekki nema einn bandaríkjadal í laun á ári, þá þarf samfélagsmiðillinn að greiða mjög háan reikning vegna þeirra starfstengdu fríðinda sem hann nýtur.

Facebook hefur upplýst að kostnaður vegna starfa Zuckerbergs hækkaði um 60% á síðasta ári, og fór úr 5,8 milljónum dala árið 2016 upp í 8,9 milljónir árið 2017. Kemur þetta fram í tilkynningu sem send var mörkuðum.

Stærsti kostnaðarliðurinn var öryggisgæslan í kringum milljarðamæringinn unga en í fyrra kostaði 7,32 milljónir dala að hafa á honum gætur. Þá kostaði 1,52 milljónir dala að fljúga Zuckerberg á milli staða með einkaflugvélum. Engum öðrum stjórnanda fyrirtækis á bandaríska hlutabréfamarkaðinum tókst að eyða svo miklu í flugsamgöngur á síðasta ári, en skýringin kann að vera að Zuckerberg notaði árið til að ferðast vítt og breitt um Bandaríkin og kynnast fólkinu sem þar býr.

Að sögn Bloomberg fengu forstjórar fyrirtækjanna í S&P 500 vísitölunni að jafnaði 187.000 dala virði af starfstengdum fríðindum á síðasta ári. 

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir