6.713 íbúðir fullkláraðar til 2020

Í Mosfellsbæ eru hlutfallslega flestar íbúðir í byggingu miðað við ...
Í Mosfellsbæ eru hlutfallslega flestar íbúðir í byggingu miðað við núverandi fjölda íbúða. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Frá árinu í ár til og með ársins 2020 verða fullgerðar 6.713 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu, eða að meðaltali rúmlega 2.200 íbúðir á ári. Í ár er gert ráð fyrir að fjöldi íbúða sem klárist verði 2.081. Það er um 56% aukning frá síðasta ári og 744 íbúðum meira en þá urðu fullklárar. Þetta kemur fram í nýrri talningu Samtaka iðnaðarins, en samtökin telja íbúðir tvisvar á ári.

Samtals eru 4.093 íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu nú samkvæmt könnuninni, en það eru 359 fleiri en voru í byggingu í september í fyrra þegar síðasta talning fór fram. Er það um 10% aukning. Flestar íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu eru í fjölbýli, eða 3.695 og hefur þeim fjölgað um 369 frá síðustu talningu (11%). Íbúðum í sérbýli hefur hins vegar fækkað um 2% og voru þær nú 398.

Flestar íbúðir eru í byggingu í Reykjavík samkvæmt talningunni, eða 1.726 talsins. Það er um 3,3% af heildarfjölda íbúða í sveitarfélaginu. Það er þó talsvert undir meðaltali sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem er 4,7%.

Í Mosfellsbæ er hlutfallið hæst, en þar eru í byggingu 550 íbúðir sem gerir um 15,3% af heildarfjölda íbúða í sveitarfélaginu. Í Garðabæ eru 594 íbúðir í smíðum, eða 10,7% af heildarfjölda íbúða og í Kópavogi eru 1.048 íbúðir í smíðum, eða 7,9% af heildarfjölda íbúða. Í Hafnarfirði eru hins vegar aðeins 150 íbúðir í smíðum og á Seltjarnarnesi 25 íbúðir. Á báðum stöðum er það 1,5% af heildaríbúðafjölda í sveitarfélögunum.

Fasteignir í byggingu í Reykjavík eru 3,3% af heildarfjölda íbúða ...
Fasteignir í byggingu í Reykjavík eru 3,3% af heildarfjölda íbúða í sveitarfélaginu. Á höfuðborgarsvæðinu er meðaltalið 4,7%. mbl.is/Ómar Óskarsson

Í sveitarfélögum í nágrenni höfuðborgarsvæðisins voru samtals 798 íbúðir í byggingu, en flestar þeirra eru í Reykjanesbæ þar sem 277 íbúðir eru í byggingu og í Árborg, þar sem fjöldinn er 259.

Á Norðurlandi voru 444 íbúðir í byggingu samkvæmt talningunni, en það eru talsvert fleiri íbúðir en í febrúar á síðasta ári þegar síðasta talning var gerð á Norðurlandi. Þá voru 241 íbúð í byggingu þar. Flestar eru íbúðirnar á Akureyri eða 363.

Fylgjast má með kynningarfundi Samtaka iðnaðarins hér.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir