Kaupendur hlutabréfa fáir og hegða sér eins

Þegar hegðun íslenska hlutabréfamarkaðarins frá árinu 1993 til 2017 er skoðuð kemur í ljós mynstur sem bendir til hjarðhegðunar og mögulegra veikleika í markaðinum.

Stefán B. Gunnlaugsson, dósent við viðskiptadeild Háskólans á Akureyri, hefur rannsakað hlutabréfamarkaðinn ítarlega. „Þróun markaðarins virðist vera þannig að með mjög einföldum aðferðum er hægt að ná miklu betri ávöxtun,“ segir hann.

Í rannsókn sinni prófaði Stefán fjárfestingarmódel sem byggist á að bera stöðu markaðarins um hver mánaðamót saman við fljótandi meðaltalsverð hlutabréfa 70 daga þar á undan. Útfærði hann módelið á fjóra vegu, þar sem ýmist var fjárfest í markaðinum, tekin skortstaða með eða án skuldsetningar eða engin áhætta tekin – allt eftir því hvort markaðurinn um mánaðamót var fyrir ofan eða neðan 70 daga meðaltalið.

„Kom í ljós að á íslenska hlutabréfamarkaðinum virðist mega nota ávöxtun í fortíð til að segja fyrir um ávöxtun í framtíð, en þannig ætti skilvirkur hlutabréfamarkaður ekki að hegða sér,“ segir Stefán. „Ef markaðurinn hefur hækkað eru umtalsverðar líkur á þvi að hann haldi áfram að hækka og ef hann hefur lækkað eru verulegar líkur á áframhaldandi lækkun.“

Þessi hegðun markaðarins er svo regluleg að ef fjárfestir hefði fylgt árangursríkasta módeli Stefáns hefði hann uppskorið ævintýralega góða ávöxtun. „Ef fjárfest hefði verið í hlutabréfamarkaðinum fyrir 100 kr. árið 1993 þá væru þær orðnar að 168 kr. í júlí 2017. Ef aftur á móti hefði verið fjárfest í samræmi við þróunina fram að hverjum mánaðamótum og notuð skuldsett skortsala, þá væru þessar 100 kr. orðnar að 219.000 kr.“

Sennilegasta skýringin á þessari óvenjulegu hegðun markaðarins er, að mati Stefáns, að þar eru kaupendurnir fáir og virðast fylgja hegðun hver annars. „Þeir kaupa ef aðrir eru að kaupa og selja ef aðrir eru að selja,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK