Óeining innan OPEC um að auka olíuframleiðslu

Khaled al-Faleh og Alexander Novak, orkumálaráðherrar Sádi-Arabíu og Rússlands á ...
Khaled al-Faleh og Alexander Novak, orkumálaráðherrar Sádi-Arabíu og Rússlands á fundi OPEC í apríl. AFP

Hossein Kazempour Ardebili, fulltrúi Írans hjá OPEC, Samtökum olíuútflutningsríkja, segir að auk Írans muni Venesúela og Írak greiða atkvæði gegn hugmyndum Sádi-Arabíu og Rússlands um að auka olíuframleiðslu að nýju.

Bloomberg greindi frá þessu um helgina en OPEC-ríkin munu funda í Vínarborg síðar í vikunni og m.a. ræða um hvort breyta skuli samkomulagi OPEC og hóps annarra olíuframleiðslulanda frá því seint á árinu 2016 um að takmarka olíuframleiðslu. Samkomulagið hefur gefið góða raun og bæði stuðlað að auknu jafnvægi á olíumörkuðum og hækkuðu verði á hráolíu en nú vilja Rússland og Sádi-Arabía – tveir stærstu olíuframleiðendur heims – byrja að slaka á þeim skorðum sem settar voru.

Að gefa grænt ljós á aukna olíuframleiðslu kæmi sér vel fyrir Rússland og Sádi-Arabíu, sem dæla töluvert minna magni af olíu úr jörðu en þau gætu, en sennilegt að Íran og Venesúela ættu í miklum erfiðleikum með að auka hjá sér olíuframleiðsluna jafnvel þó að kvóti þeirra væri aukinn, og hag þeirra því best borgið ef heildarframleiðsla helst óbreytt með tilheyrandi hækkunaráhrifum á heimsmarkaðsverð.

Eins og greint hefur verið frá er reiknað með að miklir erfiðleikar ríkisolíufélags Venesúela muni leiða til þess að olíuframleiðsla þar í landi dragist mikið saman á þessu ári. Þá munu viðskiptaþvinganir Bandaríkjamanna gegn Írönum lemstra olíugeira landsins. Alexander Novak, orkumálaráðherra Rússlands, sagði á fimmtudag að OPEC-ríkin myndu skoða að auka olíuframleiðslu um allt að 1,5 milljónir fata á dag en það myndi vega upp á móti samdrættinum hjá Venesúela og Íran, og gott betur.

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir