Viðskiptum með fasteignir fjölgar á ný

Mesta aukning í fjölda viðskipta með fasteign var í sveitarfélaginu ...
Mesta aukning í fjölda viðskipta með fasteign var í sveitarfélaginu Árborg þegar borin eru saman árin 2013 og 2018. mbl.is/Hari

Dregið hefur lítillega úr viðskiptum með fasteignir á höfuðborgarsvæðinu milli mánaða samkvæmt nýrri hagsjá Landsbankans. Þrátt fyrir lækkun milli maí og júní voru heildarviðskipti fyrsta árshelmings 2018 2% fleiri en á sama tímabili í fyrra.

Fasteignaviðskipti höfðu dregist saman nokkuð í fyrra og voru viðskipti ársins 2017 svipuð og 2015. Fækkun hélt áfram fyrstu mánuði þessa árs en sú mynd breyttist þegar leið á árið.

Í öllum stærri þéttbýlum hafa fasteignaviðskipti aukist frá 2013. Mesta aukningin hefur verið í Árborg og á Akranesi þar sem fjöldi viðskipta hefur fjórfaldast. Utan höfuðborgarsvæðisins var fjölgun minnst á Akureyri og er aukningin þar 250%. Á sama tíma jókst fjöldi viðskipta á höfuðborgarsvæðinu um 50%.

Meðal sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu jókst fjöldi slíkra viðskipta mest í Mosfellsbæ þar sem þau 3,5 földuðust og í Garðabæ þar sem  þau tæplega þrefölduðust á þessu tímabili, en minnsta aukning var í Reykjavík og á Seltjarnarnesi. Landsbankinn telur Mosfellsbæ og Garðabæ skera sig úr þar sem hefur orðið mikil aukning á þessu ári.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir