Primera Air tvöfaldar flugvélaflotann

Ný Boeing Max9-ER-vél Primera.
Ný Boeing Max9-ER-vél Primera. Ljósmynd/Craig Larsen

Primera Air ætlar sér stóra hluti í lággjaldaflugi milli Norður-Ameríku og Evrópu. Flugfélagið hefur síðan í vor boðið upp á beint flug frá London til New York, Toronto og Boston og frá París til New York, Toronto og Boston.

Andri Már Ingólfsson, forstjóri og eigandi Primera Travel Group, segir að flogið hafi verið daglega milli London og New York og það sé besta flugleið flugfélagsins.

Í apríl á næsta ári ætlar flugfélagið að taka næsta skref á þessum stækkandi lágfargjaldamarkaði til Norður-Ameríku með beinu flugi frá Brussel til Norður-Ameríku. Brussel-flugið verður flogið á Boeing Max9-ER-vélum sem flugfélagið verður fyrst allra flugfélaga í heimi til þess að taka í notkun.

Andri Már Ingólfsson, eigandi og forstjóri Primera Travel Group.
Andri Már Ingólfsson, eigandi og forstjóri Primera Travel Group.

„Við erum með gjörólíkt viðskiptamódel miðað við Icelandair og WOW air sem byggja allt sitt upp í kringum Keflavíkurflugvöll. Það er leið sem við völdum að fara ekki í á sínum tíma,“ segir Andri Már sem segir Ameríkuflug Primera Air hafa átt sér nokkurn aðdraganda.

„Við erum í einstakri stöðu að geta verið fyrsta flugfélagið til þess að fara inn á þessar stóru flugleiðir yfir Atlantshafið með þessari hagkvæmni,“ segir Andri Már en til þessa hefur Ameríkuflug verið farið á breiðþotum.

Tækifæri í lággjaldaflugi yfir Atlantshafið

Andri segir Primera Air ekki ætla að leggja frekari áherslu á vöxt í Evrópuflugi þar sem sammkepnin sé mikil. „Það hefur verið gríðarleg aukning hjá Wueling, Ryanair og Norwegian en umferð lággjaldafélaga yfir Atlantshafið er rétt að byrja. Þess vegna er það einstakt tækifæri að geta verið fyrstir með þessar vélategundir,“ segir Andri.

„Við þurfum bara að selja 185 sæti en ekki 350 eða 400,“ segir Andri og vísar þar til sætafjölda í breiðþotunum sem hafa sinnt Ameríkuflugi til þessa. Bendir hann til dæmis á að Dreamliner taki 256 í sæti en nýju vélar Primera Air taka 198 í sæti. Kostnaður vegna Dreamliner er hins vegar þrefaldur á við nýju vélar Primera.

„Þetta er stærsta tæknibreyting í flugbransanum í tuttugu ár. Við getum flogið miklu lengra og miklu hagkvæmara. Það er forsenda þess að við getum gert þetta og við erum lánsöm að vera á réttum stað á réttum tíma,“ segir Andri en sætanýtingin í Ameríkufluginu hefur verið 94 prósent í ágúst.

Primera air er í dag með 15 flugvélar en í lok næsta árs verða vélarnar 27. Að sögn Andra verða ellefu nýir áfangastaðir kynntir á næstunni.

„Við erum búin að fjármagna þetta. Þetta er búið að vera langtímaverkefni að borga inn á alla þessa samninga sem lúta að því. Síðan erum við að ganga frá langtímafjármögnun fyrir félagið. Það mun styrkja okkur mjög í þessum vexti sem fram undan er,“ segir Andri en fyrirtækið fjármagnaði sig bæði með lántöku og hlutafjáraukningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK