Fasteignasala ekki meiri frá í nóvember 2016

Byggingakranar í miðborg Reykjavíkur. Hagsjáin segir útlit fyrir að verktakar …
Byggingakranar í miðborg Reykjavíkur. Hagsjáin segir útlit fyrir að verktakar séu farnir að mæta eftirspurn eftir minni íbúðum mbl.is/​Hari

Viðskipti með fasteignir á höfuðborgarsvæðinu í ágúst voru með líflegasta móti. Hefur fjöldi viðskipta í einum mánuði ekki verið  meiri frá því í nóvember 2016 að því er segir í Hagsjá Landsbankans. Samkvæmt tölum Þjóðskrár var fjöldi viðskipta í ágúst næstum helmingi meiri en í ágúst í fyrra, 728 nú á móti 499 í fyrra. Séu fyrstu átta mánuði ársins skoðaðir, þá voru þau 7% fleiri en á sama tíma í fyrra.

Sé horft til lengri tíma megi sjá að fjöldi viðskipta á höfuðborgarsvæðinu minnkaði milli ára í fyrra í fyrsta skipti frá 2009. Viðskiptin allt árið 2017 hafi verið álíka mörg og á árinu 2015. „Fækkunin hélt áfram fyrstu mánuði ársins 2018 en síðustu mánuðir hafa breytt þeirri mynd töluvert,“ segir í Hagsjánni. Meðalfjöldi viðskipta fyrstu átta mánuðina í ár hafi því orðið jafn mikill og meðaltalið fyrir allt árið í fyrra.

„Engum dylst að mjög mikið er byggt af íbúðum um þessar mundir þannig að framboð hefur aukist mikið. Samkvæmt tölum Þjóðskrár voru nýjar íbúðir 16,5% af öllum seldum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu á fyrstu sjö mánuðum ársins, en einungis 8,3% á árinu 2017.“

Fyrstu sjö mánuði 2017 voru þær nýbyggðu íbúðir sem voru seldar að jafnaði 23% stærri en eldri íbúðir sem seldust. Þetta hefur nú breyst og í ár voru nýju íbúðirnar um 3% stærri en þær eldri. Voru nýju íbúðirnar að jafnaði 102 m2 og þær eldri 99 m2. Á fyrstu sjö mánuðum síðasta árs var meðalstærð nýrra seldra íbúða í fjölbýli hins vegar rúmir 120 m2. „Því lítur út fyrir að íbúðabyggjendur séu farnir að mæta eftirspurn eftir minni íbúðum sem er yfirleitt talin meiri en eftir þeim stærri,“ segir í Hagsjánni.

Munur á meðalverði nýrra og gamalla íbúða fyrir hvern fermetra hefur hins vegar ekki breyst mikið á milli ára. Fyrstu sjö mánuðina 2017 var munurinn 15,6% og hækkaði í 16,4% fyrstu sjö mánuðina 2018.

Sé litið á meðalverð á fyrstu sjö mánuðum áranna 2017 og 2018 sést að nýjar íbúðir hafa hækkað um 5,1% samkvæmt tölum Þjóðskrár og eldri íbúðir um 4,3%. Nýju íbúðirnar hafa því hækkað mun meira en þær eldri.

Hvort aukning á framboði nýrra íbúða muni síðan hafa áhrif til lækkunar á verði þeirra sé svo spurning sem spennandi verði að sjá svör við.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK