Fasteignasala ekki meiri frá í nóvember 2016

Byggingakranar í miðborg Reykjavíkur. Hagsjáin segir útlit fyrir að verktakar …
Byggingakranar í miðborg Reykjavíkur. Hagsjáin segir útlit fyrir að verktakar séu farnir að mæta eftirspurn eftir minni íbúðum mbl.is/​Hari

Viðskipti með fasteignir á höfuðborgarsvæðinu í ágúst voru með líflegasta móti. Hefur fjöldi viðskipta í einum mánuði ekki verið  meiri frá því í nóvember 2016 að því er segir í Hagsjá Landsbankans. Samkvæmt tölum Þjóðskrár var fjöldi viðskipta í ágúst næstum helmingi meiri en í ágúst í fyrra, 728 nú á móti 499 í fyrra. Séu fyrstu átta mánuði ársins skoðaðir, þá voru þau 7% fleiri en á sama tíma í fyrra.

Sé horft til lengri tíma megi sjá að fjöldi viðskipta á höfuðborgarsvæðinu minnkaði milli ára í fyrra í fyrsta skipti frá 2009. Viðskiptin allt árið 2017 hafi verið álíka mörg og á árinu 2015. „Fækkunin hélt áfram fyrstu mánuði ársins 2018 en síðustu mánuðir hafa breytt þeirri mynd töluvert,“ segir í Hagsjánni. Meðalfjöldi viðskipta fyrstu átta mánuðina í ár hafi því orðið jafn mikill og meðaltalið fyrir allt árið í fyrra.

„Engum dylst að mjög mikið er byggt af íbúðum um þessar mundir þannig að framboð hefur aukist mikið. Samkvæmt tölum Þjóðskrár voru nýjar íbúðir 16,5% af öllum seldum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu á fyrstu sjö mánuðum ársins, en einungis 8,3% á árinu 2017.“

Fyrstu sjö mánuði 2017 voru þær nýbyggðu íbúðir sem voru seldar að jafnaði 23% stærri en eldri íbúðir sem seldust. Þetta hefur nú breyst og í ár voru nýju íbúðirnar um 3% stærri en þær eldri. Voru nýju íbúðirnar að jafnaði 102 m2 og þær eldri 99 m2. Á fyrstu sjö mánuðum síðasta árs var meðalstærð nýrra seldra íbúða í fjölbýli hins vegar rúmir 120 m2. „Því lítur út fyrir að íbúðabyggjendur séu farnir að mæta eftirspurn eftir minni íbúðum sem er yfirleitt talin meiri en eftir þeim stærri,“ segir í Hagsjánni.

Munur á meðalverði nýrra og gamalla íbúða fyrir hvern fermetra hefur hins vegar ekki breyst mikið á milli ára. Fyrstu sjö mánuðina 2017 var munurinn 15,6% og hækkaði í 16,4% fyrstu sjö mánuðina 2018.

Sé litið á meðalverð á fyrstu sjö mánuðum áranna 2017 og 2018 sést að nýjar íbúðir hafa hækkað um 5,1% samkvæmt tölum Þjóðskrár og eldri íbúðir um 4,3%. Nýju íbúðirnar hafa því hækkað mun meira en þær eldri.

Hvort aukning á framboði nýrra íbúða muni síðan hafa áhrif til lækkunar á verði þeirra sé svo spurning sem spennandi verði að sjá svör við.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK