Pipar\TBWA sameinast The Engine

Guðmundur H. Pálsson, framkvæmdastjóri Pipars\TBWA.
Guðmundur H. Pálsson, framkvæmdastjóri Pipars\TBWA. Ljósmynd/Aðsend

Auglýsinga- og markaðsfyrirtækið Pipar\TBWA hefur sameinast The Engine. Stofnandi The Engine, Kristján Már Hauksson, mun starfa áfram með nýjum eigendum og eignast hlut í sameinuðu félagi.

The Engine sérhæfir sig í markaðssetningu á netinu og hefur vaxið ört síðustu ár. „Sameiningin við The Engine er í takt við markmið Pipars\TBWA um að styrkja félagið enn frekar á sviði netmarkaðssetningar og bæta við sig þekkingu og reynslu til þess að geta boðið viðskiptavinum okkar eins víðtæka þjónustu og mögulegt er,“ er haft eftir Guðmundi H. Pálssyni, framkvæmdastjóra Pipars\TBWA, í tilkynningu.

Hann segir eftirspurnina eftir alhliða netmarkaðssetningu sífellt aukast, en að sama skapi breytist landslagið ört og krefst aukinnar sérhæfingar og sérþekkingar. „Með sameiningunni við The Engine verðum við enn betur í stakk búin til þess að sinna fleiri, stærri og flóknari verkefnum fyrir viðskiptavini okkar hér á landi og erlendis,“ segir Guðmundur.

Kristján Már hefur áralanga reynslu af netmarkaðssetningu, haldið námskeið og skrifað bækur. Undir hans stjórn hefur The Engine náð fótfestu á erlendum mörkuðum og unnið með viðskiptavinum, m.a. Destination Canada, Domino’s-pitsukeðjunni á Norðurlöndum, fjármálarisanum Santander og símafyrirtækjunum Vodafone IoT og Sonotel.

The Engine hefur einnig aðstoðað fjölmörg íslensk fyrirtæki við að koma vörum og þjónustu á framfæri á erlendum mörkuðum með sérhönnuðum herferðum.

Eins og er starfa sjö manns hjá The Engine og mun hluti þeirra starfsmanna flytjast yfir til Pipars\TBWA á næstu dögum, en hluti þeirra er erlendis.

mbl.is

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir