Betur búin undir efnahagsáfall en áður

Þórarinn segir viðnámsþrótt þjóðarbúsins mun meiri nú en fyrir 10 ...
Þórarinn segir viðnámsþrótt þjóðarbúsins mun meiri nú en fyrir 10 árum. mbl.is/Golli

Íslenska þjóðarbúið er mun betur í stakk búið núna til að takast á við efnahagsáfall en fyrir tíu árum, enda staðan gjörólík því sem var þá, að sögn Þórarins Péturssonar, aðalhagfræðings Seðlabankans, sem flutti erindi á fundi Félags atvinnurekenda í morgun. Hann sagði marga tala um að stemningin væri búin að vera eins og árið 2007, á hápunkti góðærisins fyrir efnahagshrun, en í raun væri staðan allt önnur, allavega hvað viðnámsþrótt þjóðarbúsins varðaði.

Samkvæmt spá Seðlabankans um efnahagshorfur næstu þrjú árin, sem birt var fyrir skömmu, er búist við frekar mjúkri lendingu í efnahagsmálum haldist verðbólguvæntingar í skefjum. Þórarinn sagði þó margt geta gerst sem yrði til þess að þetta gengi ekki eftir.

„Verði hér efnahagsáfall sem gæti orðið vegna ytri áhrifa, eins og að ferðamenn hætti að koma, flugfélag fari á hausinn eða samdráttur vegna þess að Seðlabankinn þarf að hægja á hagkerfinu, þá erum við núna komin með þjóðarbúskap sem stendur þetta allt miklu betur af sér en fyrir 10 árum. fyrir 10 árum mátti ekkert út af bregða til að allt færi á hliðina.“

Skuldir fjármálafyrirtækja námu 700% af landsframleiðslu 

Þórarinn benti í fyrsta lagi á að skuldsetning þjóðarbúsins nú væri mun minni núna en fyrir hrun, enda hefðu skuldir fyrirtækja og heimila verið gríðarlega miklar í aðdraganda fjármálakreppunnar. Árið 2008 voru skuldir heimilanna um 120 prósent af landsframleiðslu og skuldir fyrirtækja um 240 prósent af landsframleiðslu. Sagði Þórarinn þetta gríðarlega mikið og í raun miklu meira en þekktist annars staðar.

Hann sagði að þrátt fyrir mikinn uppgang síðustu ár hefðu skuldir bæði fyrirtækja og heimila minnkað töluvert, en núna eru skuldir heimila um 80 prósent af landsframleiðslu og skuldir fyrirtækja um 86 prósent.

Jafnframt kom fram í máli Þórarins að skuldir hins opinbera hefðu farið upp í 100 prósent af landsframleiðslu í kjölfar fjármálahrunsins en þær væru nú komnar niður í 40 prósent. Hann sagði þennan viðsnúning í skuldsetningu vera algjört lykilatriði, því ef hér yrði annað efnahagsáfall þá væru bæði heimilin og fyrirtækin í landinu betur í stakk búin til að taka það á sig.

Fyrir tíu árum voru fyrirtæki landsins einnig búin að skuldsetja sig í erlendum gjaldmiðlum því sem nam um 130 prósentum af landsframleiðslu og heimilin um 5 prósentum. Þórarinn sagði þetta svo sannarlega hafa breyst enda skulduðu heimilin nú 0,1 prósent af landsframleiðslu í erlendum gjaldmiðlum og fyrirtækin um 20 prósent.

Þá hefðu skuldir fjármálafyrirtækja í erlendum gjaldmiðlum árið 2008 verið næstum 700 prósent af landsframleiðslu. Þórarinn sagði ekki óeðlilegt að fjármálafyrirtæki tækju lán í erlendum gjaldmiðlum, en það væri ljóst að þessi fyrirtæki hefðu verið að gera eitthvað miklu meira en lána til gjaldeyrisskapandi verkefna á Íslandi. Nú væri hlutfallið um 20 prósent.

Þrýstingur eigenda bankanna áhyggjuefni 

Þórarinn sagði efnahagsreikning þjóðarbúsins hafa tekið algjörum stakkaskiptum. Markmið Seðlabankans frá hruni hefði verið að byggja upp gjaldeyrisforðann til að geta notað þegar eitthvað bjátaði á. Fyrir kreppuna hefði forðinn nánast verið horfinn en núna væri hann um 25 til 30 prósent af landsframleiðslu. Þá hefði þjóðhagslegur sparnaður aukist, hann hefði síðustu ár dugað fyrir fjárfestingum og gott betur.

Þá væru allt aðrir undirliggjandi þættir sem drífa áfram hækkun húsnæðisverðs fyrir og eftir fjármálahrunið, að sögn Þórarins. Húsnæðisverð hækkaði um 70 rósent að raunvirði á árunum 2001 til 2007, en atvinnutekjur hækkuðu mun minna. Útlán jukust hins vegar gríðarlega og það varð mikil útlánabóla, en útlán að raunvirði til heimila jukust um 80 prósent að raunvirði.

Á árunum 2012 til 2017 hækkaði húsnæðisverð um 50 prósent, sem er mjög svipað og hækkun atvinnutekna. Útlán hafa hins vegar aukist mjög lítið og Þórarinn segir hættumerkin því alls ekki þau sömu og fyrir hrun.

Þórarinn sagði jafnframt að eigið fjárhlutfall bankakerfisins væri nú komið upp í 20 til 30 prósent sem væri mjög hátt í alþjóðlegu samhengi. Fyrir hrun hefði þetta hlutfall verið verulega lágt. Hann sagði bankana kvarta yfir þessu háa hlutfalli en Seðlabankinn streittist á móti „Þetta er það sem mun tryggja það að bankakerfið standi af sér efnahagshrun. Það sem er áhyggjuefni er að eigandi að stórum hluta þessa bankakerfis, hið opinbera, er farinn að hafa áhyggjur af of háu eiginfjárhlutfalli. Nú er kominn þrýstingur frá eigendum að fá þetta niður, en það er áhyggjuefni,“ sagði Þórarinn.

Uppfært 4. október:

Þórarinn hefur beðist afsökunar á ummælum sínum þar sem ályktaði hann út frá mikl­um arðgreiðslum síðustu ára að ríkið sem eig­andi tveggja kerf­is­legra mik­il­vægra banka væri að beita þrýst­ingi til að lækka eigið fé bankanna. 

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir