Krefst gagna frá Isavia

Isavia hefur hingað til synjað upplýsingabeiðnum Túrista. Nú hefur úrskurðarnefnd …
Isavia hefur hingað til synjað upplýsingabeiðnum Túrista. Nú hefur úrskurðarnefnd um upplýsingamál óskað eftir gögnunum frá Isavia. mbl.is/Hari

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur óskað eftir því að Isavia láti nefndinni í té „trúnaðargögn“ um mánaðarlegan farþegafjölda og sætanýtingu hvers flugrekanda sem fór um Keflavíkurflugvöll árið 2017 vegna kæru vefmiðilsins Túrista til nefndarinnar.

Isavia hefur synjað ítrekuðum upplýsingabeiðnum Túrista um fjölda flugferða og flugfarþega til og frá Keflavíkurflugvelli með þeim rökum að þær upplýsingar séu viðkvæmar út frá viðskipta- og samkeppnissjónarmiðum og fyrirtækinu sé því óheimilt að veita þær á grundvelli upplýsingalaga.

Isavia leitaði afstöðu Icelandair og WOW air til upplýsingabeiðnanna og lögðust þau bæði gegn afhendingu gagnanna.

Úrskurðarnefndin hefur tekið kæruna fyrir og veitti Isavia frest til 17. september til að koma á framfæri umsögn um kæruna og rökstuðning. Þá óskaði nefndin eftir því að henni yrði veittur aðgangur að gögnunum „í trúnaði“. Þetta kemur fram í bréfi sem úrskurðarnefndin sendi Isavia 3. september.

Hafnar rökstuðningi Isavia

Kristján Sigurjónsson, ritstjóri Túrista, hafnar alfarið þeim rökstuðningi Isavia að upplýsingarnar séu viðkvæmar út frá viðskipta- og samkeppnissjónarmiðum og telur afstöðu Isavia ganga þvert gegn tilgangi upplýsingalaga enda séu þær gríðarlega mikilvægar almenningi.

Í kærunni segir að vissulega megi fallast á að ítarlegar upplýsingar um farþegafjölda geti í einhverjum skilningi talist viðskiptaupplýsingar í tiltekinn tíma og nauðsynlegt sé að taka tillit til þess að um verðmyndandi upplýsingar geti verið að ræða. Þá geti skyldur skráðra félaga á markaði um upplýsingagjöf haft þýðingu í þessu samhengi. Aftur á móti geti slíkar upplýsingar ekki talist viðkvæmar um óendanlegan tíma.

„Umbeðnar upplýsingar geta t.a.m. með engu móti talist viðkvæmar eða verðmyndandi þegar flugrekandi hefur skilað uppgjöri vegna tímabilsins og allar upplýsingar aðrar liggja fyrir um starfsemina, t.d. í ársreikningi eða árshlutauppgjöri, enda er farþegafjöldi aðeins ein af fjölmörgum breytum sem ráða afkomu flugfélaga,“ segir einnig í kærunni.

Upplýsingarnar mikilvægar

„Ég er ekki að falast eftir þessu til að svala eigin forvitni. Þetta eru nefnilega upplýsingar sem gætu auðveldað greiningu á komum ferðamanna hingað til lands og einnig nýst stjórnvöldum, t.d. í tengslum við aðgerðir ef flugfélögin á Keflavíkurflugvelli lenda í vanda. Ekki bara þau íslensku heldur líka þau erlendu,“ segir Kristján í skriflegu svari til Morgunblaðsins.

Hann bætir því við að viðhorf Icelandair og WOW air um að leggjast gegn afhendingu upplýsinganna sé á margan hátt sérkennilegt því sambærileg gögn séu opinber víða annars staðar, t.d. í Bandaríkjunum, Bretlandi og Danmörku.

Kristján tekur sem dæmi gögn sem hann hefur fengið frá samgöngustofu Bandaríkjanna. Þau sýni að Icelandair flutti rétt um 10% fleiri farþega en WOW air, milli Íslands og Bandaríkjanna, á fyrsta ársfjórðungi þessa árs.

„Ég gæti leitað víðar að svona upplýsingum en eðlilegra væri að Isavia veitti aðgang að þessum gögnum. Í Bandaríkjunum væri talan ekkert leyndarmál. Hún er það hins vegar á Íslandi og það er ókostur í landi þar sem ferðaþjónusta og flugrekstur eru jafnmikilvægar atvinnugreinar og raun ber vitni,“ bætir Kristján við.

Ráðherra finnst málið umhugsunarvert

Í skriflegu svari Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur ferðamálaráðherra til Túrista segir hún meðal annars: „Mér finnst umhugsunarvert að meiri upplýsingar skuli vera veittar í ýmsum öðrum löndum og það gæti verið vísbending um að við ættum að endurskoða okkar nálgun. Hugsanlega eru að einhverju leyti eðlilegar skýringar á þessu en ég hallast að því að við getum gert betur í upplýsingagjöf en við gerum í dag og ég tel eðlilegt að ræða það.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK