Kalla eftir stjórnarkjöri í VÍS

Mikil átök hafa verið upp í eigendahópi VÍS síðastliðin fjögur ...
Mikil átök hafa verið upp í eigendahópi VÍS síðastliðin fjögur ár. Eggert Jóhannesson

Tveir stærstu lífeyrissjóðir landsins, Lífeyrissjóður verslunarmanna og LSR, sem jafnframt eru meðal stærstu hluthafa tryggingafélagsins VÍS með samtals 14,89% hlut, hafa sent erindi á Valdimar Svavarsson, formann stjórnar félagsins, og kallað eftir því að hluthafafundur verði haldinn í félaginu hið fyrsta. Samkvæmt hlutafélagalögum ber að verða við slíkri beiðni ef hluthafi eða hluthafar með að lágmarki 5% hlutafjár að baki sér, kalla eftir fundi. Því er ljóst að stjórn VÍS mun boða til fundarins innan tilskilins frests.

Fara fram á stjórnarkjör

Beiðni sjóðanna mun hafa verið send stjórnarformanni félagsins fyrr í dag. Í henni er farið fram á að kosið verði til stjórnar félagsins að nýju. Að öllu jöfnu færi stjórnarkjör í félaginu ekki fram fyrr en á nýju ári enda sótti sitjandi stjórn umboð sitt á aðalfundi félagsins sem haldinn var 22. mars síðastliðinn.

Ástæða þess að nú er komin fram beiðni um hluthafafund eru langvarandi deilur innan stjórnar VÍS sem náðu hápunkti í kjölfar stjórnarfundar þann 25. október síðastliðinn þegar tveir stjórnarmenn, Helga Hlín Hákonardóttir, stjórnarformaður og Jón Sigurðsson, meðstjórnandi, sögðu sig úr stjórn félagsins með þeim orðum að „stjórnarhættir innan stjórnar hafi leitt af sér trúnaðarbrest og um leið efa okkar um að umboðsskyldu stjórnarmanna sé gætt í ákvarðanatöku.“ Í kjölfar afsagnarinnar eru stjórnarmenn VÍS aðeins þrír, þau Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir, Valdimar Svavarsson og Gestur Breiðfjörð Gestsson en varamenn tveir, þau Ólöf Hildur Pálsdóttir og Sveinn Friðrik Sveinsson.

Helga Hlín Hákonardóttir og Jón Sigurðsson sögðu sig úr stjórn ...
Helga Hlín Hákonardóttir og Jón Sigurðsson sögðu sig úr stjórn VÍS á dögunum. Ljósmynd/Aðsend

Trúnaðarbresturinn sem þau vísuðu til tengdist þeirri fyrirætlan Svanhildar Nönnu Vigfúsdóttur, sem sæti á í stjórninni, að taka að nýju við embætti stjórnarformanns í félaginu. Hún hafði vikið úr því hlutverki í byrjun júnímánaðar í kjölfar þess að héraðssaksóknari hóf umfangsmikla rannsókn á viðskiptum hennar og eiginmanns hennar, Guðmundar Arnar Þórðarsonar, í kjölfar þess að þau eignuðust olíufélagið Skeljung. Upplýsti Morgunblaðið um það í júní að rannsóknin sneri að meintri ólögmætri meðferð veða á vettvangi olíufélagsins í kjölfar þess að Íslandsbanki seldi þeim það, auk þess sem kaup fyrrverandi starfsmanna Íslandsbanka á P/F Magn, færeysku olíufélagi, væri til rannsóknar.

Valdimar tekur við stjórnarformennsku

Ekkert varð af því að Svanhildur Nanna tæki að nýju við stjórnarformennsku en þess í stað myndaði hún, ásamt Valdimar Svavarssyni og Gesti Breiðfjörð Gestssyni meirihluta um að Helga Hlín viki úr stóli stjórnarformanns og að Valdimar tæki við því hlutverki. Gestur Breiðfjörð var kjörinn varaformaður á sama tíma. Þær sviptingar urðu til þess að Helga Hlín og Jón Sigurðsson sögðu sig úr stjórninni.

Valdimar Svavarsson tók við stjórnarformennsku í félaginu nú í október.
Valdimar Svavarsson tók við stjórnarformennsku í félaginu nú í október.

Helga Hlín hafði komið inn í stjórn VÍS með fulltingi Gildis lífeyrissjóðs árið 2016. Vakti sú ráðstöfun nokkra athygli í ljósi þess að nokkru fyrir aðalfundinn höfðu þau Svanhildur Nanna og Guðmundur Örn eignast talsverðan hlut í félaginu. Á margra vitorði var að þau höfðu eldað grátt silfur við Helgu Hlín á árum áður í tengslum við rekstur líkamsræktarstöðvarinnar Crossfit XY og litlir kærleikar þar á milli. Það var hins vegar ekki fyrr en ári síðar, eða í kjölfar aðalfundar 2017 sem alvarlega skarst í brýnu á þessum vettvangi.

Veltu fulltrúa Lífeyrissjóðs verslunarmanna úr sessi

Þá kom ný inn í stjórn VÍS Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir. Um nokkurra ára skeið hafði Herdís Dröfn Fjeldsted, framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands, verið stjórnarformaður félagsins. Á stjórnarfundi sem haldinn var strax í kjölfar aðalfundarins var henni hins vegar skákað til hliðar og Svanhildur Nanna tók við stjórnartaumunum. Sú atburðarás leiddi til þess að Herdís Dröfn sagði sig úr stjórn félagsins. Hún hafði notið fulltingis Lífeyrissjóðs verslunarmanna til stjórnarsetunnar og var lítil ánægja á þeim vettvangi með þessa ráðstöfun mála, þótt ekki hafi sjóðurinn gripið til aðgerða vegna þess á þeim tímapunkti.

Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir og Guðmundur Örn Þórðarson hafa verið aðsópsmikil ...
Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir og Guðmundur Örn Þórðarson hafa verið aðsópsmikil í hluthafahópi VÍS frá árinu 2016. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Gildi seldi sig niður vegna átakanna

Síðar studdi Lífeyrissjóður verzlunarmanna Jón Sigurðsson til stjórnarstarfa í VÍS. Sjóðurinn hefur því á síðustu tveimur árum horft á bak tveimur stjórnarmönnum sem hann hefur stutt í félaginu. Heimildir Morgunblaðsins herma að stórir hluthafar innan VÍS séu orðnir langþreyttir á þessum átökum og er þess vænst að hluthafafundur, þar sem stjórn sækir nýtt umboð til starfa fram að næsta aðalfund, geti stuðlað að því. Frá því að átökin hófust hefur Gildi lífeyrissjóður hins vegar ákveðið að „kjósa með fótunum“ og selt sig verulega niður í félaginu. Í dag á sjóðurinn 2,78% í félaginu.

Frá því að síðast var kosið í stjórn VÍS hafa eignarhlutföll breyst talsvert og kann það að hafa áhrif hvernig staða einstakra stjórnarmanna verður þegar kemur að stjórnarkjöri. Þannig var Valdimar Svavarsson studdur til stjórnarsetu af fjárfestingarfélaginu Grandier ehf. en það er í eigu fjárfestanna Sigurðar Bollasonar og Don McCarthy. Þeir seldu hins vegar 8% hlut sinn í félaginu í lok maí.

mbl.is

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Erlendar viðskiptafréttir