Hagnaður Íslandsbanka 9,2 milljarðar

Íslandsbanki.
Íslandsbanki. mbl.is/Hjörtur

Hagnaður Íslandsbanka á fyrstu níu mánuðum ársins nam 9,2 milljörðum króna eftir skatta samanborið við 10,1 milljarð á sama tímabili í fyrra. Þetta samsvarar 7,1% arðsemi eigin fjár auk þess sem arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi var 9%.

Á þriðja ársfjórðungi nam hagnaður Íslandsbanka 2,1 milljarði króna sem er sambærilegur hagnaður og á sama tímabili árið 2017 og arðsemi eigin fjár var 4,9% á ársgrundvelli.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, segir í fréttatilkynningu:

„Hagnaður Íslandsbanka á fyrstu níu mánuðum ársins var í takt við væntingar og nam 9,2 milljörðum íslenskra króna sem samsvarar 7,1% arðsemi eigin fjár auk þess sem arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi var 9%. Ágætur gangur var í þóknanatekjum sem hækkuðu um 6,1% ef horft er til móðurfélags og Íslandssjóða auk þess sem kostnaðarhlutfall var ekki langt frá langtíma markmiði bankans um 55% kostnaðarhlutfall. Aftur á móti leiddu minni umsvif hjá tveimur af dótturfélögum bankans til 13,5% tekjusamdráttar hjá samstæðu á milli ára auk kostnaðarhlutfalls upp á 65,6% á samstæðugrunni.

Áframhaldandi kraftur var í útlánum á þriðja ársfjórðungi sem hafa aukist um 10,6% á fyrstu níu mánuðum ársins eða um rúma 80 milljarða króna og kemur traust lánasafn bankans áfram mjög vel út í alþjóðlegum samanburði. Lausafjárstaða bankans er sterk í bæði íslenskum krónum og erlendum gjaldmiðlum og hefur fjármögnun bankans verið farsæl frá áramótum og gaf bankinn meðal annars út sitt annað víkjandi skuldabréf í lok sumars. Enn fremur þá lækkaði Fjármálaeftirlitið í september heildarkröfu um eiginfjárgrunn úr 19,8% í 18,8% fyrir Íslandsbanka sem er til marks um að heldur hafi dregið úr áhættu bankans.

Mikil umsvif hafa verið á gjaldeyrismarkaði í haust og hefur velta verið hæst hjá gjaldeyrismiðlun bankans síðustu mánuði. Íslandssjóðir náðu sinni hæstu markaðshlutdeild á íslenskum sjóðamarkaði og var fasteignafélagið FAST-1 sem var í stýringu Íslandssjóða selt með góðri ávöxtun fyrir fjárfesta.

Í haust tók Íslandsbanki í notkun nýtt grunnkerfi fyrir innlán og greiðslumiðlun ásamt því að fjárfesta í nýrri tækni sem mun gera hann betur í stakk búinn við að takast á við breyttan bankaheim. Sem dæmi um stafrænar nýjungar bankans má nefna að Íslandsbanki var nýlega fyrstur íslenskra banka til að opna fyrir öruggt auðkennanlegt netspjall á vef sínum en þessi þjónustuleið hefur notið mikilla vinsælda víða um heim og í næstu viku mun bankinn byrja að bjóða upp á snertilausar greiðslur með farsíma.

Við erum sannfærð um að fjárfestingar bankans í öflugum tæknigrunni og stafrænum lausnum ásamt persónulegri þjónustu muni viðhalda framtíðarsýn bankans um að vera leiðandi í fjármálaþjónustu á Íslandi.“

Hér er hægt að lesa nánar um uppgjör bankans.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK