Mörg tilboð borist í Icelandair Hotels

Bogi Nils Bogason tók við forstjórastöðunni hjá Icelandair Group fyrir …
Bogi Nils Bogason tók við forstjórastöðunni hjá Icelandair Group fyrir skemmstu. Kristinn Magnússon

Á annan tug óskuldbindandi tilboða hafa borist í Icelandair Hotels sem er dótturfélag Icelandair Group. Þetta staðfestir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group í viðtali við ViðskiptaMoggann í dag. Síðarnefnda félagið hóf formlegt söluferli á hótelfyrirtækinu í byrjun nóvember síðastliðins.

Spurður út í verðmiðann á fyrirtækinu segir Bogi að hann geti ekki gefið neitt upp um það á þessum tímapunkti.

„Áhuginn hefur hins vegar verið mikill enda hefur átt sér stað mikil og góð uppbygging hjá okkur á síðustu árum.“

Skýr mynd komist á málið á fyrsta fjórðungi

Spurður út í hvenær hann telji að söluferlinu muni ljúka segir hann að unnið sé hratt í því að fá niðurstöðu í málið.

„Við viljum sjá skýra mynd af þessu á fyrsta fjórðungi næsta árs,“ segir Bogi.

Í tilkynningu sem Icelandair Group sendi frá sér þann 2. nóvember síðastliðinn kom fram að söluferlið væri í höndum Íslandsbanka og HVS í London. Í fjárfestakynningu sem kynnt hefur verið mögulegum kaupendum kemur m.a. fram að leigutekjur félagsins nemi 0,7 milljörðum króna á ári og að EBITDA af hótelrekstrinum nemi 0,9 milljörðum króna samkvæmt áætlun fyrir árið 2018. Áætlun næsta árs geri ráð fyrir að leigutekjur muni nema 0,8 milljörðum og að EBITDA af hótelrekstrinum hækki í 1,1 milljarð.

Félagið rekur 13 hótel. Það eru: Reykjavík Natura, Reykjavík Marina, Hilton Reykjavík Nordica, Canopy Reykjavik | City Centre, Reykjavík Konsúlat Hótel og Hótel Alda. Á landsbyggðinni eru Icelandair hótel á Akureyri, við Mývatn og á Héraði. Einnig eru sérleyfishótel á Flúðum, Klaustri, Hamri og í Vík. Icelandair hótel reka einnig sumarhótelkeðjuna Hótel Eddu, með tíu hótel um land allt. Um er að ræða alls 1.937 herbergi á landinu öllu, 876 í Reykjavík og 450 herbergi á landsbyggðinni í rekstri allt árið en þar að auki 611 Eddu hótelherbergi í sumarrekstri. Þá stefna Icelandair Hotels að opnun nýs hótels við Austurvöll í samstarfi við Hilton árið 2019.

Meðal nýjustu hótela Icelandair Hotels, er Canopy Reykjavík sem staðsett …
Meðal nýjustu hótela Icelandair Hotels, er Canopy Reykjavík sem staðsett er í miðborg Reykjavíkur. mbl.is/Styrmir Kári

Á þessu ári bættust þrjú ný hótel við reksturinn hjá Icelandair Hotels og jókst framboð hótelherbergja á hverjum tíma við það um 197 herbergi. Í nóvember síðastliðnum voru 32.340 hótelnætur í boði á hótelum félagsins. Fól það í sér aukningu um 20% frá sama mánuði í fyrra. Félagið seldi 24.803 nætur í síðastliðnum mánuði. Nýtingarhlutfallið var því 76,7% og jókst um 1,2 prósentustig.

Ítarlegt viðtal birtist við Boga Nils Bogason, forstjóra Icelandair Group á miðopnu ViðskiptaMoggans í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK