82% launahækkun geti varla talist hófleg

Katrín segir launahækkanirnar, sem samtals hljóða upp á 82%, algerlega …
Katrín segir launahækkanirnar, sem samtals hljóða upp á 82%, algerlega óásættanlegar. mbl.is/​Hari

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að 82% launahækkun geti varla talist hófleg, en í starfskjarastefnu stjórnvalda segir að laun skuli vera hófleg og samkeppnishæf.

„Ég spyr, samkeppnishæf við hvað? Hér erum við að tala um bankastjóra sem er með meira en helmingi hærri laun en fjármála- og efnahagsráðherra landsins, sem fer með málefni bankanna,“ segir forsætisráðherra í samtali við mbl.is um tvær launahækkanir bankastjóra Landsbankans sem hafði árslaun upp á 44 milljónir króna árið 2018.

Katrín segir launahækkanirnar, sem samtals hljóða upp á 82%, algerlega óásættanlegar og minnir á að þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra hafi sent sérstök tilmæli til opinberra fyrirtækja um að gæta hófs í launahækkunum.

„Þetta er langt umfram það sem við höfum séð á hinum almenna og opinbera vinnumarkaði. Þessi hækkun sem ákveðin er af bankaráði er algerlega úr takti við stefnu stjórnvalda, sem brugðist hafa við gagnrýni á kjararáð með því að skýra stefnu um laun æðstu embættismanna. Þá liggur fyrir þinginu frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra þess efnis að þau kjör muni framvegis fylgja launaþróun á hinum opinbera markaði,“ segir Katrín.

Hún segir þetta mögulega benda til þess að setja þurfi skýrari viðmið inn í starfskjarastefnuna um það hvernig ákveða eigi kjör.

„Ef það er þannig að stjórn bankans túlkar hóflega og samkeppnishæfa launastefnu með þessum hætti þá þarf kannski bara að setja það nákvæmlega inn í starfskjarastefnu hvernig fara eigi með kjör æðstu stjórnenda.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK