Tóku í notkun fyrsta 5G-sendi landsins

Margrét Tryggvadóttir, lengst til vinstri, ásamt 5G teymi Nova sem …
Margrét Tryggvadóttir, lengst til vinstri, ásamt 5G teymi Nova sem hóf í gær prófanir á 5G-farsíma- og netþjónustu.

Fjarskiptafyrirtækið Nova hefur tekið í notkun fyrsta 5G-sendinn á Íslandi og hóf í gær prófanir á 5G-farsíma- og netþjónustu. Fyrirtækið sótti um 5G-tilraunaleyfi hjá Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) fyrr í þessum mánuði og hefur fyrsti sendirinn verið settur upp á þaki höfuðstöðva Nova við Lágmúla. Í versluninni er búið að setja upp þráðlausan netbeini sem móttekur 5G-merki en gert er ráð fyrir að tilraunirnar muni taka nokkra mánuði. Viðskiptavinir fyrirtækisins mega búast við því að geta nýtt sér 5G internet árið 2020 en sú tímasetning er háð nokkrum óvissuþáttum. Til dæmis hvað varðar endabúnað en í gær kynnti Samsung nýjan Galaxy S10-farsíma sem er sá fyrsti sem styður 5G.

Tífalt hraðara net

„Við segjum 2020 en þetta getur verið fyrr og getur verið síðar. Fyrst kemur kerfið og tæknin. Síðan koma tækin. Úthlutun á tíðnileyfi frá Póst- og fjarskiptastofnun er eitt af því sem þarf að klára áður en 5G er komið til viðskiptavina. Þetta eru því nokkur skref,“ segir Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova.

Frá upphafi hefur Nova fjárfest í fjarskiptatækni fyrir um sjö milljarða króna. Á síðasta ári nam fjárfestingin einum milljarði. Á þessu ári verður fjárfest í 5G-tækni samhliða öðrum fjarskiptakerfum en áætlanir fyrirtækisins gera ráð fyrir um milljarðs fjárfestingu á þessu ári. Þegar uppfærslu fjarskiptakerfis Nova verður lokið munu notendur njóta að meðaltali tífalt meiri nethraða en þekkist með 4G.

Margrét segir 5G-net vera staðkvæmdarvöru fyrir ljósleiðaratengingar og í því felist mikil tækifæri fyrir landsmenn.

„Það er ekki komin ljósleiðaratenging um allt land. Þetta býður upp á heilmikil tækifæri og samtal við yfirvöld um það hvernig eigi að gera þetta. En þetta er hagkvæmara og ég tel að þetta sé samtal sem eigi eftir að fara fram,“ segir Margrét en gríðarlegur vöxtur hefur verið á netnotkun viðskiptavina Nova á síðustu misserum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK