Tómas fram í stjórn Íslandsbanka

Tómas Már Sigurðsson, framkvæmdastjóri stefnumótunartengsla hjá Alcoa á heimsvísu.
Tómas Már Sigurðsson, framkvæmdastjóri stefnumótunartengsla hjá Alcoa á heimsvísu. mbl.is/Ómar Óskarsson

Tómas Már Sigurðsson, framkvæmdastjóri stefnumótunartengsla hjá Alcoa á heimsvísu, gefur kost á sér í stjórnarkjör Íslandsbanka, en aðalfundur bankans fer fram á fimmtudaginn. Helga Valfells, framkvæmdastjóri hjá Crowberry capital, gefur ekki kost á sér áfram, en hinir sex sem sitja í stjórn bankans gefa áfram kost á sér.

Stjórnin er skipuð sjö manns, en ásamt Tómasi eru í framboði Friðrik Sophusson stjórnarformaður, Anna Þórðardóttir, Auður Finnbogadóttir, Árni Stefánsson, Hallgrímur Snorrason og Heiðrún Emilía Jónsdóttir. Samkvæmt tillögum til aðalfundar sem birtar hafa verið á heimasíðu bankans er lagt til að Friðrik verði áfram stjórnarformaður.

Einnig er tillaga fyrir fundinum um að greiða út 5,3 milljarða í arð til hluthafa, en íslenska ríkið er eini eigandi bankans. Samsvarar það um 50% af hagnaði síðasta árs og í samræmi við stefnu bankans um 40-50% arðgreiðsluhlutfalli.Til samanburðar greiddi bankinn út 13 milljarða í arð á síðasta ári.

Ekki er gert ráð fyrir að þóknanir til stjórnar breytist milli ára, en þóknun stjórnarmanna er 420 þúsund á mánuði og stjórnarformanns 735 þúsund. Þá fær varaformaður 525 þúsund krónur. Auk þess fá stjórnarmenn 210 þúsund á mánuði fyrir þátttöku í undirnefndum stjórnar og formenn nefndanna aukalega 30 þúsund á mánuði.

mbl.is

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir