Honda-umboðið til Öskju

Honda CRV jeppi.
Honda CRV jeppi. Kristinn Magnússon

Bílaumboðið Askja hefur undirritað kaupsamning um kaup félagsins á þeim hluta reksturs Bernhard ehf. sem fer með Honda-umboðið á Íslandi. Bílaumboðið Bernhard ehf. hefur haft umboðið fyrir japanska framleiðandann frá árinu 1962.

Askja, sem selur bifreiðar frá Mercedes-Benz og Kia, vinnur nú að gerð áreiðanleikakannanna og að þeim loknum munu fyrirhuguð kaup á Honda-umboðinu fara til skoðunar hjá Samkeppniseftirlitinu. Fyrirvari um samkomulag við Honda Motor Company Ltd. er einnig er í kaupsamningnum.

„Bílaumboðið Askja ehf. og Bernhard ehf. hafa undirritað kaupsamning um kaup Öskju á þeim hluta reksturs Bernhard ehf. sem fer með Honda umboðið á Íslandi. Í kaupsamningnum er fyrirvari um samkomulag við Honda Motor Company Ltd. vegna kaupanna og samþykki Samkeppniseftirlitsins,“ segir í tilkynningu um kaupin.

Hafa náð samkomulagi

Að sögn Jóns Trausta Ólafssonar, framkvæmdastjóra Öskju, hefur Askja í þónokkurn tíma verið að skoða það að bæta við sig merki.

„Enda hefur okkur gengið mjög vel með þau merki sem við höfum verið með. Við höfum átt í viðræðum við eigendur Bernhard í nokkurn tíma og höfum ná samkomulagi við þá,“ segir Jón Trausti í samtali við mbl.is.

„Það er verið að aflétta nokkrum fyrirvörum og sú vinna gengur vel. Þetta mun skýrast að fullu á næstu vikum,“ gerir Jón Trausti enn fremur ráð fyrir.

Mikið tap árið 2017

Forráðamenn Bernhard vildu ekki tjá sig um málið er mbl.is leitaðist eftir því en fyrirtækið hefur verið að glíma við minnkandi markaðshlutdeild og aukna samkeppni undanfarin ár.

Í ársreikningi félagsins fyrir árið 2017 kemur fram að tap félagsins hafi numið 371,4 milljónum króna en árið 2016 skilaði fyrirtækið 25 milljóna króna hagnaði. Þá var eigið fé félagsins neikvætt um 24,4 milljónir króna árið 2017.

Það sama ár var stærsta árið í bílasölu frá upphafi en þá voru 26.226 ökutæki nýskráð. Samdrátturinn í bílasölu árið 2018 nam 15,6% miðað við hið góða ár 2017 og seldust 17.974 bílar. Enn frekar hefur hægst á bílasölu það sem af er þessu ári. Á fyrstu þremur mánuðum ársins 2019 hafði salan dregist saman um 41% í samanburði við sama tímabil í fyrra. Af þeim 2.721 bílum sem seldir voru á fyrstu þremur mánuðum ársins 2019 seldust 75 bifreiðar frá Honda.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK