Búið að greiða skuldir þotunnar

Vél í eigu ALC í vörslu Isavia á Keflavíkurflugvelli.
Vél í eigu ALC í vörslu Isavia á Keflavíkurflugvelli. Ljósmynd/Hilmar Bragi Bárðarson

Nú í morgun var skuld farþegaþotunnar, sem kyrrsett hefur verið á Keflavíkurflugvelli frá gjaldþroti WOW air 28. mars, greidd til Isavia og er félaginu gefinn frestur til klukkan 14 í dag til þess að láta vélina af hendi.

Lögmenn bandaríska flugvélaleigufyrirtækisins ALC greiddu skuldina, en mbl.is hefur kvittanir þess efnis undir höndum. Annars vegar var greitt með íslenskum krónum, rúmar 55 milljónir, og hins vegar tæplega 230 þúsund evrum, sem nemur rúmri 31 milljón. Heildargreiðslan nemur um 87 milljónum króna, sem var samkvæmt útreikningum lögmanna ALC sú skuld sem var við þessa tilteknu vél við Isavia.

Í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness frá því á fimmtudag sagði að Isavia væri heimilt að aftra brottför vélarinnar vegna þeirra gjalda sem tengjast vélinni sjálfri. Það félli ekki yfir aðrar skuldir WOW air við Isavia, en kyrrsetning vélarinnar átti að vera trygging fyrir um tveggja milljarða skuld WOW air við Isavia. Skuldir þessarar vélar voru hins vegar um 87 milljónir króna, og hafa nú verið greiddar.

Sem áður segir fær Isavia nú frest til klukkan 14 í dag til þess að tryggja það að brottför flugvélarinnar verði ekki lengur aftrað. „Nú er næsti leikur þeirra. Annars leitum við atbeina dómstóla á ný,“ segir Oddur Ástráðsson, lögmaður ALC, við mbl.is.

Isavia tilkynnti á föstudag að félagið hefði kært úrskurð héraðsdóms til Landsréttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK