Mjög hugsi yfir útspili borgarinnar

Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís.
Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Ég verð að viðurkenna að þegar sagt er við mig að fækka eigi þessum útsölustöðum um helming á næstu sex árum þá verð ég aðeins hugsi yfir því og þá kannski ekki síst yfir því hvernig borgin ætli að þjóna sínum íbúum.“

Þetta segir Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís, í samtali við mbl.is en Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, greindi frá því í gær að samþykktar hefðu verið á fundi borgarráðs meginlínur og samningsmarkmið í viðræðum við olíufélögin með það að markmiði að fækka bensínstöðvum í Reykjavíkurborg um helming.

Spurður hvort eitthvert samráð hafi verið haft við olíufélögin í þessum efnum segir Jón Ólafur ekki hægt að segja það. Hins vegar hafi félögin vitað að Reykjavíkurborg hafi haft áform um að fækka bensínstöðvum á ellefu stöðum með einhverjum hætti. Vegna áherslu á orkuskipti sé vitanlega skilningur á þeirri stefnu hjá þeim.

Reykjavíkurborg og olíufélögin hafi fundað í janúar þar sem þessi mál hafi verið rædd en þar hafi verið talað um þróun mála næstu áratugina. Olíufélögin væru að sjálfsögðu reiðubúin til viðræðna við borgina í þessum efnum. Hins vegar, eins og fyrr segir, segist Jón Ólafur hugsi yfir því ef fækka eigi um helming á sex árum.

mbl.is/Sigurður Bogi

„Ég er mjög hugsi yfir þessu útspili. Ekki kannski síst vegna þess að ég held að á næstu 10-20 árum verði jarðefnaeldsneyti meira eða minna meginorkugjafi í samgöngum, bæði hér á landi sem og annars staðar. Það er að fara í gang ansi mikil innviðauppbygging hér á landi og ég get ekki séð annað en að jarðefnaeldsneyti muni knýja þær breytingar.“

Meðalhófs og jafnræðis verði gætt

Jón Ólafur segist gera ráð fyrir samtali við Reykjavíkurborg í þessum efnum. Spurningin sé líka hvort borgaryfirvöld sjái fyrir sér að eitthvað annað taki við á þessum tíma, hvort sem það séu almenningssamgöngur eða annað. Markmið borgarinnar í loftslagsmálum séu metnaðarfull og vitanlega séu allir á sama báti í þeim efnum.

„Mér þykir hins vegar kannski of mikið gert úr hlut einkabílsins í þessu samhengi. Það eru aðrir þættir eins og í flugsamgöngum sem vega miklu, miklu þyngra í stóra samhenginu. Við erum líka ákveðin bílaþjóð og þykir gott að nota einkabílinn til þess að sinna erindum okkar og síðan er veðráttan hér kannski ekki alveg þannig að hægt sé að nýta almenningssamgöngur og annað í sama mæli og víða annars staðar.“

Hins vegar séu það vitanlega borgarfulltrúar sem beri ábyrgð á þróun Reykjavíkurborgar. „Við erum að þjónusta borgarbúa og höfum byggt upp okkar kerfi í kringum það. Olís er með í kringum tíu eldsneytisstöðvar í Reykjavík. Þannig að við erum í sjálfu sér ekki með margar stöðvar á þessu svæði. En við gerum að sjálfsögðu ráð fyrir að gætt verði meðalhófs og jafnræðis í því hvernig málið verður nálgast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK