Geta valið sjálf vörur úr hillurekkum

Með þessum hugbúnaði er hægt að velja sér matvörur.
Með þessum hugbúnaði er hægt að velja sér matvörur. Ljósmynd/skjáskot úr Sjónkaup

Sjónkaup er nýr hugbúnaður í smíðum sem gerir viðskiptavinum kleift að ganga á milli hillurekka í matvöruverslun og velja vörur til kaups án þess að færa sig úr stað. Þetta er hugmynd sem hópur nemenda í áfanganum nýsköpun og stofnun fyrirtækja í Háskólanum í Reykjavík vinnur að um þessar mundir. Árið 2023 gæti þetta orðið að veruleika hér á landi. 

„Þetta er framtíðin. Ég held að það sé tímaspursmál hvenær þetta verður að veruleika,“ segir Ingibjörg Aldís Hilmisdóttir ein af fimmmenningunum sem vinna að verkefninu. Frumgerð af snjallforritinu hefur gefið góða raun og voru notendur ánægðir með upplifunina. Einnig þeir sem höfðu ekki nýtt sér vefverslun til þessa. 

Með hugbúnaðinum er hægt að ganga í gegnum matvöruverslanir í smáforriti og er uppsetningin sambærileg og í tölvuleik. 

Nemendurnir benda á að vefverslun muni halda áfram að aukast og með forritinu er verið að mæta þörfum þeirra. Með því að nota þetta forrit getur fólk upplifað að fara inn í matvöruverslunina sjálfa í stað þess að fletta í gegnum vörurnar á vefsíðum. „Það er ekki eins skemmtilegt,“ segir Ragney Lind Siggeirsdóttir og bæti við: „Þarna upplifir fólk að fara í verslun og getur valið eitthvað eftir tilfinningu. Hvatakaup eiga eftir að aukast. Öll þekkjum við að velja eitthvað sem við ætluðum ekki fyrst að kaupa.“

Í þessu samhengi benda þau einnig á að þegar fólk verslar gengur það yfirleitt alltaf ákveðna leið og man eftir vörum á tilteknum stöðum. Það gæt hjálpað fólki við að muna hvað vantar í matinn.     

Hópurinn benti á að það hugnaðist ekki öllum að fara í verslanir sjálfir. Það sparar tíma að geta keypt vörur á netinu en á sama tíma vill fólk einnig upplifa að koma í verslun. Þetta getur einnig nýst fólki sem er til dæmis félagsfælið og öðrum sem komast ekki út í búð af einhverjum öðrum ástæðum. 

Næsta mál á dagskrá er að kynna verkefnið fyrir fjárfestum. Þau hlakka til og segjast vongóð um að þeim lítist vel á afurðina. 

Spurð hvernig hugmyndin hafi kviknað svara þau því til að þessi hugmynd hafi verið kosin eftir lýðræðislega kosningu. Þau hafi fengið fullt af fínum hugmyndum en þessi stóð upp úr.  

Í hópnum sem stendur að Sjónkaupum eru: Björn Vilhelm Ólafsson, heilbrigðisverkfræði BS. á 1. ári, Ingibjörg Aldís Hilmisdóttir, vélaverkfræði BS. á 1. ári, Hjörtur Jóhann Vignisson, tölvunarfræði BS. á 2. ári, Ragney Lind Siggeirsdóttir, viðskiptafræði BA. á 1. ári og Stefanie Esther Egilsdóttir, lögfræði BA 1. ári. 

Nemendurnir sem koma að verkefninu.
Nemendurnir sem koma að verkefninu. Ljósmynd/Aðsend
Merki Sjónkaupa.
Merki Sjónkaupa.
mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK