Fallast á rök ESA um áfengissölu í Leifsstöð

Stjórnvöld hafi fallist á rök ESA um vankanta á reglum …
Stjórnvöld hafi fallist á rök ESA um vankanta á reglum um sölu áfengis í Fríhöfninni. mbl.is/Eggert

Íslensk stjórnvöld hafa fallist á rök ESA, eftirlitsstofnunar EFTA, um að vöruvalskerfi og markaðssetning Fríhafnarinnar vegna einkasölu ríkisins á áfengi samrýmist ekki reglum EES. Þurfi þar af leiðandi að innleiða nýtt verklag svo hægt sé að tryggja að vörum og heildsölum verði ekki mismunað.

Greint er frá því í Fréttablaðinu að í bréfi fjármála- og efnahagsráðuneytisins til ESA frá því í apríl, hafi stjórnvöld endurskoðað afstöðu sína til málsins og fallist á málflutning eftirlitsstofnunarinnar. Í fyrra bréfi ráðuneytisins hafði rökum ESA verið andmælt.

ESA sendi íslenskum stjórnvöldum formlegar athugasemdir í lok nóvember síðastliðnum og var ríkinu veittur tveggja mánaða frestur til að svara athugasemdunum. ESA hafði áður borist kvörtun árið 2016 frá íslenskum áfengisinnflytjanda og var niðurstaða ESA í málinu sú að fyrirkomulag sölu áfengis í verslunum Fríhafnarinnar bryti í bága við 16. grein EES-samningsins. Um væri að ræða ríkiseinkasölu og ekki hefðu verið settar nægilega skýrar reglur til að tryggja að heildsölum yrði ekki mismunað. 

Samkvæmt 16. grein samningsins ber íslenska ríkinu að tryggja breytingar á ríkiseinkasölu í viðskiptum svo að enginn greinarmunur sé gerður á milli ríkisborgara aðildarríkja Evrópska Efnahagssvæðisins hvað varðar skilyrði til aðdrátta og markaðssetningar vara. Þótti skorta á hlutlægar og gagnsæjar reglur um innkaup áfengra vara í Fríhöfninni.

Í svari fjármála- og efnahagsráðuneytisins við fyrirspurn Fréttablaðsins segir að vinna við gerð nýrra reglna sé á byrjunarstigi og að breytingarnar séu til þess gerðar að tryggja gagnsæi og jafnræði aðila sem vilja koma vörum í sölu í Fríhöfninni.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK