Viðræður um Boeing-bætur standa yfir

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekkert liggur fyrir um fjárhæð þeirra bóta sem Icelandair mun fá frá bandaríska flugvélaframleiðandanum Boeing vegna galla í Boeing 737 Max-vélunum, sem hafa verið kyrrsettar síðan í mars. Þetta segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í samtali við mbl.is.

Ljóst er að tjón Icelandair er nokkuð. Fyrir það fyrsta hafi þurft að leigja aðrar vélar til að sinna verkefnum sem Max-vélar hefðu átt að sinna, og þá hafi flugfélagið þurft að draga saman seglin og aflýsa einhverjum ferðum af þeim sökum.

Greint var frá því í gær að Boeing hefði lagt til hliðar 4,9 milljarða Bandaríkjadala, um 830 milljarða króna, vegna fyrirhugaðra bótagreiðslna. Það þýðir þó ekki að neitt samkomulag sé fyrir hendi um greiðsluna. Bogi segir að ekkert liggi fyrir um hverjar bæturnar verði, einungis að til standi að greiða þær. Hann segir erfitt að leggja mat á tjón flugfélagsins, sérstaklega þar sem ekki sé vitað hve lengi kyrrsetningin vari. 

Flugáætlun Icelandair gerir ráð fyrir að Boeing 737 Max-vélarnar verði teknar aftur í notkun í október, en aðspurður treystir Bogi sér ekki til að segja til um hve líklegt það sé að það gangi eftir. „Verkefni Boeing, flugfélaga og eftirlitsaðila nú snýst um að tryggja öryggi vélanna og farþega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK