Skúli framkvæmdastjóri Kolibri

Skúli Valberg Ólafsson.
Skúli Valberg Ólafsson. Ljósmynd/Aðsend

Skúli Valberg Ólafsson, formaður stjórnar Kolibri, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri félagsins og tekur hann við starfinu af Ólafi Erni Nielsen 1. september.

Skúli býr yfir mikilli reynslu af störfum í upplýsingatækni, fjármálum og nýsköpun. Hann hefur starfað sem stjórnandi hjá EJS, Oz.Com, Straumi-Burðarás, Raiffeisen Bank í Austurríki, Beringer Finance og Festu - miðstöð um samfélagsábyrgð. Þá hefur Skúli verið ráðgjafi fjölda fyrirtækja í breytingarferlum, fjármögnun og nýsköpun, að því er segir í tilkynningu.

Skúli hefur setið í stjórnum fjölda fyrirtækja, bæði á Íslandi og erlendis og má þar nefna CCP, Opin kerfi Group, Klakka, Símann, Skipti, Florealis og RIFF meðal annara.

Hann er með gráðu í iðnaðar- og kerfisverkfræði frá University of Florida og MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Þá leggur hann stund á framhaldsnám í stafrænum viðskiptum.

„Við öll hjá Kolibri þökkum Ólafi Erni fyrir frábært samstarf og hyggjum á áframhaldandi samstarf við hann á nýjum vettvangi. Kolibri er mjög framsækið fyrirtæki í stafrænum lausnum sem leggur áherslu á nýjustu aðferðafræði í rekstri og verkefnastjórn,“ segir Skúli Valberg í tilkynningunni.

Kolibri er hugbúnaðar- og ráðgjafarfyrirtæki sem handleiðir og þjálfar fyrirtæki og stofnanir í þróun og innleiðingu á stafrænum lausnum með framsæknum aðferðum og inngripum í rekstur og ferla. Hjá fyrirtækinu eru nú um 30 starfsmenn sem sinna verkefnum á þessu sviði. Á meðal viðskiptavina eru Tryggingamiðstöðin, Íslandsbanki, Reykjavíkurborg, Marel, Landsnet, Valitor og Eimskip.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK