Stefnir ótrauð á nýtt WOW

Michelle Ballarin hefur ekki gefist upp á kaupum á WOW …
Michelle Ballarin hefur ekki gefist upp á kaupum á WOW air. Stefnt er að því að ganga frá kaupsamningi á eignum þrotabúsins á næstu dögum og endurreisa flugfélagið undir sama nafni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Banda­ríska at­hafna­kon­an Michele Ball­ar­in stefnir ótrauð á að endurvekja flugfélagið WOW air undir sama nafni. Hún er stödd hér á landi í því skyni að ná samningum við skiptastjóra þrotabús flugfélagsins um kaup á flestum eignum í búinu.

Gunnar Steinn Pálsson almannatengill er tengiliður Ballarin hér á landi. Í samtali við mbl.is segist hann telja að töluverð viðskiptavild felist í vörumerkinu WOW, sem hafi mikla útbreiðslu vestanhafs og sé jafnvel þekktara en Icelandair. Vissulega hafi það þó beðið skaða við gjaldþrotið og til sé fólk sem aldrei muni kaupa sér farmiða með endurreistu félaginu. Eftir standi þó að milljónir þekki félagið af ódýrum flugferðum og stefnt sé að því að reka WOW air áfram í þeirri mynd. Þá fylgi metnaðarfullt bókunarkerfi WOW air og fleiri forrit með í kaupunum.

WOW-nafnið er vel þekkt og í því felst viðskiptavildin, að …
WOW-nafnið er vel þekkt og í því felst viðskiptavildin, að sögn Gunnars Steins, talsmanns Ballarin. mbl.is/Hari

Fyrra samkomulag fór út um þúfur

Samkomulag hafði í síðasta mánuði náðst um kaup Ballarin á félaginu. Í ítarlegu viðtali við ViðskiptaMoggann lýsti Ballarin áformum sínum, þar sem hún sagði meðal annars að hún þyrfti ekki á lánsfé að halda, heldur væri fullfjármögnuð. Þá virðist hún hafa hugmyndir um að fyrirtækið komi að stofnun sérstaks verkalýðsfélags fyrir starfsmenn sína, sem hún sér sennilega fyrir sér að yrði ófullburða og undir hæl fyrirtækisins, í því skyni að ná niður kostnaði.

Þremur dögum síðar var greint frá því að skiptastjórn WOW air hefði rift kaupsamningi við Ballarin, og ástæðan sögð að „síendurtekið hafi dregist að inna af hendi fyrstu greiðslu samkvæmt kaupsamningi“.

Samkvæmt heimildum mbl.is er því nú haldið fram að ástæða þess hafi ekki verið fjárhagsvandræði, heldur hafi ekki tekist að koma söluvörunni, sem mestmegnis eru hin ýmsu kerfi, á það form að kaupandinn gæti vitað almennilega hvað í þeim fælist. Af þeim sökum hafi Ballarin ekki viljað inna fyrstu greiðslu af hendi. Nú virðist sem Ballarin hafi komist að því hvað sé í sekknum, og stefnt sé að því að ganga endanlega frá kaupum á allra næstu dögum.

Erfitt með að greina raunveruleikann frá ímyndun

Nokkuð hefur verið rætt um vafasama viðskiptasögu Ballarin, sem hefur komið víða við á viðburðaríkum ferli. Hefur hún meðal ann­ars verið til um­fjöll­un­ar í fjölmiðlum fyr­ir að hafa reynt að vera lausn­ar­gjaldsmiðlari þegar sjó­ræn­ingj­ar und­an strönd­um Sómal­íu tóku skip og áhafn­ir í gísl­ingu. Fram kem­ur í um­fjöll­un Washingt­on Post um Ball­ar­in að hún hafi haft háleitar hugmyndir um hvernig koma mætti á friði í landinu.

Þá segir í umfjöllun tímaritsins Foreign Policy um ævintýri Ballarin að hún hafi ítrekað reynt að gera samninga við hernaðaryfirvöld í Bandaríkjunum og meðal annars ráðið fyrrverandi hermenn og leyniþjónustustarfsmenn í því skyni að ná fundum með æðstu embættismönnum þjóðaröryggismála vestanhafs, sem vilji ekkert með hana hafa.

Hefur Washington Post eftir Geoff Whiting, fyrrverandi starfsmanni leyniþjónustunnar, sem starfaði með Ballarin um tíma að hún ætti erfitt með að greina á milli raunveruleikans og þess ímyndaða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK