Stefna öllum leigubílum á einn stað

Ívar Freyr Sturluson leiðir fjögurra manna hóp forritara og frumkvöðla …
Ívar Freyr Sturluson leiðir fjögurra manna hóp forritara og frumkvöðla sem smíðað hafa Drivers Iceland snjallforritið. Ljósmynd/Hari

Loksins kom að því að Íslendingar eignuðust sitt eigið forrit í anda Uber. Þeir lesendur sem reynt hafa á ferðalögum sínum erlendis vita hversu gagnlegt það er að geta notað snjallsímann til að panta far með leigubíl, en Ísland hefur rekið lestina í þessum efnum og stóru alþjóðlegu skutlfyrirtækin látið íslenska markaðinn í friði.

Ívar Freyr Sturluson fer fyrir hópi fjögurra ungra frumkvöðla sem smíðað hafa forritið Drivers Iceland (www.drivers.is), sem gerir notendum kleift að panta bíl frá hvaða leigubílastöð sem er. Þá er von á að regluverk leigubílamarkaðarins taki miklum breytingum á komandi misserum, með þeim afleiðingum að framboð leigubifreiða ætti að stóraukast og munu sjálfstæðir leigubílstjórar geta boðið þjónustu sína í gegnum Drivers.

Að sögn Ívars hafa leigubílastöðvarnar gert tilraunir með forrit í anda Uber en ekki átt erindi sem erfiði. Ýmist hafi virkni forritanna ekki verið nógu góð eða svo vandasamt að gera forritin vel að svaraði ekki kostnaði fyrir staka leigubílastöð. Drivers fer þá leið að vera opið bílstjórum hjá öllum leigubílastöðvunum átta, ásamt þeim sem keyra bíla úti á landi þar sem engar fastar stöðvar eru. „Með þessu er verið að bæta þjónustuna við viðskiptavini, enda auðvelt að panta far í gegnum forritið og hægt að sjá fyrir fram áætlaðan kostnað fyrir hverja ferð. Þá mun Drivers vonandi auðvelda erlendum ferðamönnum að panta leigubíl og bæta þannig nýtingu leigubílaflotans.“

Drivers-forritið er notendavænt, rétt eins og sambærileg forrit úti í …
Drivers-forritið er notendavænt, rétt eins og sambærileg forrit úti í heimi.


Lægra verð með betri nýtingu

Ívar bendir réttilega á að fyrir marga ferðamenn sé það mjög framandi að panta leigubíl með gamla laginu, og langtum hentugra að nota forrit þar sem hægt er að sjá skýrt og vel hvert leiðin liggur. „Með því að fjölga viðskiptavinum og bæta nýtingu leigubíla vonumst við líka til að með tímanum verði hægt að lækka kostnaðinn við hverja ferð, enda ein skýringin á því að farið með leigubíl er ekki ódýrara að viðskiptavinurinn þarf líka að borga fyrir þann tíma sem bílstjórinn bíður á milli farþega.“

Hvort það stangist ekki á við reglur leigubílastöðvanna að bjóða lægra verð en sem nemur því sem kæmi fram á gjaldmælinum segir Ívar að reglurnar leyfi bílstjórum að bjóða fast gjald fyrir stakar ferðir, líkt og þekkist nú þegar með akstur frá höfuðborgarsvæðinu út í Keflavík. „En svo vonumst við líka til að bílstjórar geti notað forritið til að finna kaupendur að alls kyns sérferðum á áfangastaði ferðamanna, og eins að viðskiptavinir muni geta deilt kostnaðinum við aksturinn með því að ferðast margir saman í sama bílnum.“

Að sögn Ívars mun væntanleg reglugerð opna leigubílamarkaðinn til muna. Þannig verður t.d. ekki lengur þak á fjölda leigubíla hverju sinni, og bílstjórum ekki lengur skylt að vera skráðir hjá leigubílastöð. „Þá mun ekki lengur þurfa meirapróf, og að hafa sinnt afleysingum á leigubíl í áraraðir, til að verða leigubílstjóri, heldur verður nóg að sitja stutt námskeið. Það á eftir að koma í ljós hvernig tryggingahlutinn verður útfærður, en til þessa hefur verið dýrara að tryggja bíla sem notaðir eru til farþegaflutninga, og gæti það komið í veg fyrir að almennir borgarar sjái sér hag í því að nýta heimilisbílinn endrum og sinnum til að skutla. Aftur á móti eru þegar skráðir u.þ.b. 1.300 afleysingaökumenn leigubílstjóra, sem bíða margir eftir því að fá úthlutað leigubílstjóraleyfi, og munu þeir fljúga strax inn í þetta nýja kerfi án mikillar fyrirhafnar.“

Þarf gott jafnvægi til að virka

Stóru farveiturnar erlendis hafa sýnt það að hugmyndin er góð, og um allan heim hafa neytendur tekið því fagnandi að geta pantað leigubíl í snjallsímaforriti. En það þarf meira til en gott forrit því þjónustan þarf að vera í lagi. Hefur helsta áskorun skutlfyrirtækjanna, þegar þau hafa haldið inn á nýja markaði, verið að tryggja að gott jafnvægi sé á framboði og eftirspurn; ef ekki er nóg af bílum í boði verða notendurnir óánægðir, og ef ekki er nóg af farþegum fá ökumennirnir ekki þær tekjur sem þeir höfðu vonast eftir. „Það hefur einmitt verið helsta áhyggjuefni okkar að hafa nógu marga bílstjóra með okkur í liði. Enda höfum við frá byrjun gætt þess að smíða forritið þannig að það falli að þörfum bílstjóranna og hjálpi þeim að vinna vinnu sína betur. Undanfarna mánuði og misseri höfum við rætt beint við leigubílstjóra, haldið kynningar fyrir þá og sýnt þeim út á hvað verkefnið gengur, og hvernig allir hagnast á því að nota Drivers-forritið.“

Tekjumódel Drivers er enn í mótun og segir Ívar að fyrst um sinn verði þjónustan ókeypis fyrir alla og farþegar greiði beint til bílstjórans eins og venjulega. „Þegar fram í sækir munum við bæta við þeim möguleika að borga í gegnum forritið, og greiða fast gjald frekar en samkvæmt mæli, og myndum þá taka hóflega prósentu af hverri ferð. Verður það þó langtum lægra hlutfall en hjá erlendum keppinautum okkar sem taka yfirleitt nærri helmingshlut af fargjaldinu í sinn hlut.“

Greinin birtist upphaflega í ViðskiptaMogganum 23. október.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK