Play borist 2.500 starfsumsóknir

Arnar Már Magnússon, forstjóri Play, var gestur Kastljóss í kvöld.
Arnar Már Magnússon, forstjóri Play, var gestur Kastljóss í kvöld. mbl.is/​Hari

Flugfélaginu Play hafa borist 2.500 starfsumsóknir síðan störf hjá félaginu voru auglýst fyrir rúmlega viku síðan. Þetta kom fram í Kastljósi í kvöld, þar sem Arnar Már Magnússon, forstjóri Play, var gestur.

Aðspurður hversu mörg störf stæði til að ráða í sagði Arnar Már að stefnt væri að því að starfsfólki yrði fjölgað í 300 næsta sumar, en til stendur að hefja flug með tvær flugvélar og sex áfangastaði innan Evrópu. Samkvæmt áætlun eiga vélarnar svo að verða sex næsta vor, auk þess sem hefja á flug til nokkurra áfangastaða á austurströnd Bandaríkjanna og Kanada.

Í máli Arnars Más kom jafnframt fram að umsókn um flugrekstrarleyfi væri á lokametrunum og að um leið og það væri í höfn hæfist sala á farmiðum. Vonir standa til um að flugferðir hefjist á þessu ári.

A330 stærstu mistök WOW air

Aðspurður hvað Play hefði fram yfir önnur flugfélög sem hefðu kiknað undan samkeppni við Icelandair á undanförnum árum sagði Arnar Már að t.d. yrði Play með flugrekstrarleyfi frá upphafi reksturs, sem hvorki Iceland Express né WOW air hafi haft. Þá hafi þeir sem komi að rekstrinum mikla reynslu af flugrekstri eftir að hafa komið að rekstri WOW air, þar sem stærstu mistökin hafi verið kaup á Airbus A330 breiðþotum.

„Þær henta ekki best fyrir rekstur lággjaldaflugfélags,“ sagði Arnar Már og fullyrti að áhersla yrði lögð á einfaldan flota hjá Play.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK