Ójöfnuður minni en áður var talið

Stúlka stillir sér upp við fræga styttu á Wall Street. …
Stúlka stillir sér upp við fræga styttu á Wall Street. Á þeim slóðum áttu sér stað fræg mótmæli gegn misskiptingu, og beindust gegn auðugasta 1% samfélagsins. Mótmælin kunna að hafa byggt á rangtúlkun gagna. AFP

Nýjar rannsóknir benda til að eldri mælingar á ójöfnuði hafi gefið skakka mynd af skiptingu auðs í samfélögum og að ójöfnuður hafi aukist lítið sem ekkert. Reynist þetta rétt gæti það kippt stoðunum undan mörgum af þeim staðhæfingum sem einkennt hafa pólitíska umræðu á vesturlöndum undanfarin ár, og myndi þýða að stjórnvöld þurfi mögulega að beita allt öðrum leiðum vilji þau freista þess að draga úr ójöfnuði.

The Economist fjallar um þetta í ítarlegri grein sem birt var á fimmtudag og greinir frá rannsóknum fræðimanna sem sýna að hlutfallslegur skerfur ríkasta 1% íbúa Bandaríkjanna hafi sama sem staðið í stað frá 1960. Segja fræðimennirnir að fyrri rannsóknir, sem notuðu skattskýrslur til að reikna út ójöfnuð, hafi ekki notað gögnin með réttum hætti. Þá sé auðsöfnun millistéttarinnar vanmetin s.s. vegna þess að hlutabréfaeign þeirra er að stórum hluta bundin í milliliðum eins og lífeyrissjóðum.

Önnur villa sem litaði eldri útreikninga var að taka ekki mið af breyttu fjölskyldumynstri. Hjúskapartíðni hefur farið lækkandi meðal tekjulægri hópa, sem þýðir að meðaltekjur heimila í neðri tekjuþrepum virðast lægri en þau annars væru, á meðan tekjuþróunin er allt önnur ef litið er á tekjur einstaklinga frekar en tekjur heimila. Snýr þetta m.a. á haus niðurstöðum hagfræðinga eins og Thomas Piketty sem hafa fullyrt að misskipting auðs hafi aukist mikið á undanförnum áratugum.

Eins hafa hagfræðingar bent á að leiðrétta þurfi fyrir þá staðreynd að margir sjálfstæðir atvinnurekendur greiða sér tekjur úr eigin fyrirtækjum svo þær gætu á blaði virst vera arður af fjármagni en eru í raun launagreiðslur. Vísar The Economist í rannsókn sem birt var í febrúar og skoðaði tekjur n.k. gegnumstreymisfélaga (e. pass-through businesses) í Bandaríkjunum sem oft eru notuð af sjálfstætt starfandi læknum, lögfræðingum, ráðgjöfum og öðrum hátekjustéttum. Kom í ljós að hagnaður þessara félaga dróst saman um þrjá fjórðu þegar eigendur þeirra féllu frá eða settust í helgan stein, sem bendir til að tekjur þeirra hafi hafi byggt á vinnuframlagi frekar en rentu af fjármagni. Þýðir þetta að ekki er hægt að fullyrða með jafn afgerandi hætti um misskiptingu fjármagnstekna og launatekna á ólíkum tekjuþrepum.

Loks bendir The Economist á þann vel þekkta galla við útreikninga á misskiptingu að þeir taki ekki tillit til þess að tekjur fólks og eignir breytast með aldri, og ójöfnuðarmælingar taki sniðmynd af samfélaginu á ákveðnu augnabliki frekar en að skoða hag einstaklinga til lengri tíma. Þannig kom í ljós í bandarískri rannsókn að fólk með miðgildi tekna í neðsta tekjufjórðungi árið 1987 var að jafnaði komið með 100% hærri tekjur að tveimur áratugum liðnum, á meðan tekjur miðgildisfólks í efsta tekjufjórðungi lækkuðu um 5% á sama tímabili. Þá veldur klif fólks upp atvinnumarkaðinn, og auðsöfnun yfir starfsævina, auk einskiptistekna af ýmsum toga, því að um 11% Bandaríkjamanna geta vænst þess að tilheyra tekjuhæsta prósenti landsmanna í a.m.k. eitt ár á milli 25 ára aldurs og sextugs. ai@mbl.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK