Íslenskt hugvit í lykilhlutverki á Google Next

Tilkynnt var um samstarf NetApp og Google Cloud á ráðstefnunni …
Tilkynnt var um samstarf NetApp og Google Cloud á ráðstefnunni Google Next, sem haldin var í London í nóvember. Thomas Kurian, forstjóri Google Cloud, kynnti þjónustuna sem fengið hefur heitið NetApp Cloud Volumes Service for Google Cloud. Ljósmynd/Aðsend

Notendur tölvuskýs Google Cloud bætast nú í hóp þeirra sem geta nálgast lausnir og þjónustu NetApp beint í gegnum viðmót viðkomandi skýjaþjónustu. Tenging NetApp við Google Cloud byggir á vinnu sem unnin var hjá NetApp Íslandi undir heitinu Cloud Volumes.

NetApp á Íslandi hefur undanfarin ár unnið að þróun Cloud Volumes, skýjalausnar sem gerir fyrirtækjum kleift að tvinna saman þjónustu NetApp og annarra fyrirtækja — það sem kallað hefur verið hybrid-skýjalausn. NetApp á Íslandi hefur aðlagað Cloud Volumes-lausnina að þremur stærstu skýjaþjónustum heims, Microsoft, Amazon og nú síðast Google.

Tilkynnt var um samstarf NetApp og Google Cloud á ráðstefnunni Google Next, sem haldin var í London, dagana 20. — 21. nóvember. Thomas Kurian, forstjóri Google Cloud, kynnti þjónustuna sem fengið hefur heitið NetApp Cloud Volumes Service for Google Cloud en hún hefur verið í beta-prófunum hjá skrifstofu NetApp á Íslandi í rúmt ár. 

Búa til skýjalausnir fyrir stærstu tæknifyrirtæki heims

„Netapp á Íslandi er að búa til lausnir fyrir stærstu tæknifyrirtæki heims á sviði skýjalausna. Það er gríðarlega ánægjulegt að sjá afrakstur allrar þeirra vinnu sem teymið okkar hefur unnið undanfarin ár. Þetta hefur gengið vonum framar, þökk sé öflugu teymi og sterkum liðsanda. Það verður gaman að sjá vöxt og vinsældir Azure NetApp Files og Cloud Volumes vaxa enn hraðar nú þegar stærstu skýjaþjónustur heimsins hafa tekið lausnina upp á sína arma,“ er haft eftir Jóni Þorgrími Stefánssyni, forstjóra NetApp á Íslandi, í tilkynningu.

Hjá NetApp Iceland starfa nú 60 manns, en íslenska skrifstofan varð til við kaup bandaríska fyrirtækisins NetApp Inc. á íslenska hugbúnaðarfyrirtækinu Greenqloud árið 2017. NetApp var stofnað árið 1992 og hefur verið skráð á Nasdaq-verðbréfamarkaðinn í New York frá árinu 1995. Frá árinu 2012 hefur NetApp verið á lista Fortune yfir 500 stærstu fyrirtæki Bandaríkjanna. Hjá fyrirtækinu starfa um 10.500 manns á heimsvísu.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK