Indigo stórminnkar hlut sinn í Wizz

Wizz Air hefur flogið til og frá Íslandi.
Wizz Air hefur flogið til og frá Íslandi.

Stærsti hluthafi ungverska lággjaldaflugfélagsins Wizz Air, bandaríska fjárfestingarfélagið Indigo Partners, hefur minnkað hlut sinn í Wizz Air í takt við reglur Evrópusambandsins um eignarhald flugfélaga. Indigo Partners átti í viðræðum á sínum tíma um að kaupa hlut í WOW air, mánuðina fyrir fall félagsins.

Bill Franke, stofnandi og forstjóri Indigo Partners, er formaður stjórnar Wizz Air. Eins og segir í frétt Reuters fer hlutur Indigo úr 20,6% niður í 3,4% hlut. Um er að ræða 12,5 milljónir hluta sem seldir voru á 3,5% lægra gengi en lokagengi félagsins var í kauphöll í gær, mánudag. Söluandvirðið nemur um 650 milljónum Bandaríkjadala, eða jafnvirði rúms 81 milljarðs íslenskra króna. Indigo Partners á 2,5 milljónir hluta í Wizz Air eftir söluna.

Þurfa að vera í evrópskri eigu að 50% hluta

Flugfélög þurfa að vera að 50% hluta í eigu aðila innan Evrópska efnahagssvæðisins og Sviss til að mega fljúga innan svæðisins. Eftir útgöngu Breta úr ESB teljast breskir fjárfestar í Wizz Air nú til fjárfesta utan Evrópska efnahagssvæðisins, sem skýrir hve stóran hlut hið bandaríska Indigo selur nú í félaginu. 

Wizz, sem haldið hefur úti áætlunarflugi til og frá Íslandi, er atkvæðamest í Mið- og Austur-Evrópu. Félagið sagði í apríl í fyrra að það hygðist safna hlutafé frá evrópskum fjárfestum í þeim tilgangi að ná að falla undir reglur ESB um eignarhald. Að öðrum kosti gæti það misst réttinn á að fljúga innan ESB eftir Brexit.

Wizz Air hækkaði afkomuspá sína fyrir síðasta ár á dögunum, eftir að í ljós kom að þriðji ársfjórðungur gekk betur en áætlanir höfðu gert ráð fyrir, og félagið seldi fleiri miða en spáð var.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK