VÍS hagnaðist um rúma 2,5 milljarða í fyrra

Höfuðstöðvar VÍS við Ármúla.
Höfuðstöðvar VÍS við Ármúla. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vátryggingafélag Íslands, VÍS, hagnaðist um 2.527 milljónir króna á síðasta ári. Hagnaður félagsins, eftir skatta, jókst þannig um 466 milljónir króna á milli ára. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins sem birtur var síðdegis í dag.

Iðgjöld ársins voru tæplega 23,4 milljarðar króna, en voru rúmir 22,7 milljarðar árið 2018. Tekjur af fjárfestingastarfsemi félagsins uxu umtalsvert og voru 3,55 milljarðar í fyrra, en rúmir 2,8 milljarðar árið 2018.

Arðsemi eigin fjár á árinu 2019 var 17,2%, sem er besta niðurstaða félagsins nokkru sinni. Helgi Bjarnason forstjóri VÍS segir félagið geta verið stolt af þeirri staðreynd, en þau orð eruð höfð eftir honum í afkomutilkynningu félagsins sem send var til Kauphallar eftir lokun markaða í dag.

Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS.
Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS.

„Afkoma fjárfestinga var góð en stýring eignasafnsins hefur gengið vel þar sem markaðsáhættan hefur verið nýtt betur með það að markmiði að hámarka arðsemi eigin fjár. Þetta er í samræmi við stefnu félagsins um fjármagnsskipan,“ er haft eftir Helga.

Tryggingareksturinn litaðist af stórum tjónum

Forstjórinn segir tryggingareksturinn hafa verið ásættanlegan, en að hann hafi litast af „stórum tjónum, annað árið í röð, auk þess sem mikil lækkun vaxta hafði neikvæð áhrif.“

„Á síðasta ári greiddum við viðskiptvinum um 17 milljarða króna í tjónabætur. Þetta er einmitt hlutverk okkar, að vera traust bakland fyrir viðskiptavini okkar. Niðurstaðan er sú, að 2019 er eitt besta rekstrarár í sögu VÍS,“ segir forstjórinn, sem bætir við að stafrænni þjónustu félagsins hafi verið vel tekið.

„Stafræn vegferð er á fullri ferð með skýrum markmiðum til framtíðar. Í takt við markmið okkar, höfum við reglulega kynnt nýjar stafrænar lausnir fyrir viðskiptavini okkar. Frá upphafi höfum við borið hönnun og virkni lausnanna undir þá til þess að sannreyna hvort þær svari þörfum þeirra. Viðskiptavinir okkar hafa svo sannarlega tekið vel á móti nýrri stafrænni þjónustu en tæplega 100% aukning var á innskráningum milli ára á þjónustugátt okkar. Nú kynnum við nýja lausn sem gerir okkur kleift að afgreiða um 8.500 tjón sjálfvirkt á ári, eða um fjórðung tilkynntra tjóna,“ er haft eftir Helga.

Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa verður haldinn í húsakynnum VÍS í Ármúla 3, þann 28. febrúar kl. 8:30. Þar mun forstjórinn kynna afkomu félagsins og svara spurningum.

Ársreikningur VÍS

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK