„Djúpt en von­andi stutt sam­drátt­ar­skeið“

Ríkisstjórnin hefur þegar tilkynnt um þrjá aðgerðapakka til þess að …
Ríkisstjórnin hefur þegar tilkynnt um þrjá aðgerðapakka til þess að vega gegn efnahagsáhrifum COVID. Alls nema áhrif þessara pakka u.þ.b. 330 milljörðum króna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Greining Íslandsbanka spáir 9,2% samdrætti á árinu. Hversu hratt faraldurinn gengur niður er lykilforsenda fyrir því hversu hraður efnahagsbatinn verður. Bankinn spáir því að stýrivextir fari niður í 0,75% fyrir lok september og atvinnuleysi verði að meðaltali 9,6% í ár. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri og ítarlegri þjóðhagsspá greiningar Íslandsbanka— „Djúpt en von­andi stutt sam­drátt­ar­skeið“ — fyrir árin 2020-2022, þá fyrstu frá samkomubanni. 

COVID-19-faraldurinn hefur gerbreytt efnahagshorfum til skemmri tíma. Ljóst virðist að efnahagssamdráttur verður umtalsverður á árinu 2020 en í janúar sl. spáði greining Íslandsbanka 1,4% hagvexti fyrir árið.

„Spá okkar nú hljóðar upp á 9,2% samdrátt í ár. Fyrirsjáanlegt er að tekjur ferðaþjónustunnar verða innan við helmingur af tekjum síðasta árs. Einnig mun vöruútflutningur dragast nokkuð saman vegna minni álútflutnings og hnökra á flutningum með ferskan fisk og fleiri vörur vegna COVID,“ segir í spá Íslandsbanka.

Einkaneysla mun skreppa talsvert saman vegna stóraukins atvinnuleysis, tímabundinna hamla á sumar tegundir neyslu og varkárni neytenda á óvissutímum. Líklegt er að fjárfesting í einkageiranum dragist verulega saman. Mótvægisaðgerðir hins opinbera munu hins vegar leiða til aukinnar opinberrar fjárfestingar. Innflutningur er líklegur til að dragast umtalsvert saman vegna minni ferðalaga erlendis, samdráttar í innlendri eftirspurn og áhrifa veikingar krónu á innbyrðis spurn eftir innflutningi og innlendum vörum/þjónustu. Hversu hratt faraldurinn gengur niður er lykilforsenda fyrir því hversu hraður efnahagsbatinn verður. Verði faraldurinn í rénun eftir mitt ár eru góðar horfur á myndarlegum hagvexti á seinni tveimur árum spátímans.

Tekjur ferðaþjónustu innan við helmingur af tekjum síðasta árs

Erlendir ferðamenn voru tæplega 2 milljónir talsins á síðasta ári og árið þar með þriðja stærsta ferðamannaárið frá upphafi þrátt fyrir 14% fækkun milli ára. Nú er öðruvísi í pottinn búið og ljóst að ferðaþjónusta verður fyrir miklu höggi á næstu misserum vegna veirunnar og ferðatakmarkana sem fylgdu í kjölfar hennar. Óvissa um hvenær lönd opna landamæri sín og fólk treystir sér til að ferðast er mikil.

Ferðaþjónusta er stærsta atvinnugreinin og hefur síðustu ár skilað jafnvirði nærri fjögurra af hverjum tíu krónum í gjaldeyristekjum þjóðarbúsins. Tekjur af erlendum ferðamönnum námu 470 mö. kr. árið 2019.

Á sama tímabili skilaði sjávarútvegur alls 260 ma. kr. tekjum og álflutningur 212 ma. kr. tekjum. Fyrirsjáanlegt er að tekjur í ferðaþjónustunni á þessu ári verði innan við helmingur af tekjum síðasta árs.

„Það er því ljóst að höggið mun hafa gríðarleg áhrif á þjóðarbúið. Við gerum ráð fyrir að ferðamenn fari að heimsækja landið á nýjan leik á seinni helmingi ársins og verði samtals um 750 þúsund á árinu sem eru svipað margir og komu hingað til lands árið 2013. Samdráttur ferðamanna á milli ára verður því um 62%, en nú þegar hafa um 330 þúsund ferðamenn komið hingað til lands á fyrstu þremur mánuðum ársins. Við teljum að ferðaþjónusta taki hægt og bítandi við sér á nýju ári. Ferðamenn verði rúm milljón á næsta ári og 1,3 milljónir árið 2022.“

Spá 12% samdrætti í íbúðafjárfestingu

mbl.is/Sigurður Bogi

Meiri ró hefur færst yfir íbúðamarkaðinn eftir mikið ólgutímabil síðustu ár. Árið 2019 hækkaði raunverð íbúða um 0,4% frá árinu á undan sem er minnsta raunverðshækkun frá árinu 2012. Myndarlegur vöxtur íbúðafjárfestingar og dvínandi eftirspurn hefur dregið úr þrýstingi á markaði og má sjá mun betra samræmi á milli raunverðs íbúða og kaupmáttar launa að undanförnu.

„Á síðustu fjórum árum hefur íbúðafjárfesting vaxið töluvert og óx hún um ríflega 30% á síðasta ári. Við gerum ráð fyrir 12% samdrætti í íbúðafjárfestingu á þessu ári og 5% árið 2021. Talning Samtaka iðnaðarins á íbúðum í byggingu bendir til samdráttar í nýbyggingum á næstu misserum auk þess sem eftirspurn er líkleg til að dragast saman vegna efnahagshorfa næstu misserin.

Þá spáum við að vöxtur taki við sér á ný árið 2022 og verði 15%. Vegna versnandi efnahagshorfa þar sem atvinnuleysi hefur aukist töluvert, hægt hefur á kaupmætti launa og fólksfjölgun verið hægari teljum við að raunverð íbúða muni lækka. Það sem mun koma til með að hjálpa eftirspurnarhliðinni eru fyrst og fremst hagstæð fjármögnunarkjör, en vextir á íbúðalánum hafa aldrei verið hagstæðari. Við spáum því að raunverð íbúða lækki um 3,2% á þessu ári, lækki um 2,4% á næsta ári og haldist óbreytt árið 2022,“ segir í þjóðhagsspá Íslandsbanka.

Atvinnuleysi hefur á síðustu fjórum árum mælst 3% að meðaltali, sem þykir mjög lágt í alþjóðlegu samhengi. Í mars síðastliðnum gjörbreyttist staða á vinnumarkaði sökum COVID-veirunnar og mældist atvinnuleysi 5,7% í þeim mánuði. Vegna faraldursins er ljóst að atvinnuleysi mun verða verulegt á þessu ári. Nú þegar hafa fjölmargar hópuppsagnir átt sér stað, m.a. hjá Icelandair þar sem 2.000 manns misstu vinnunna, eða um 1% af heildarvinnuafli. Þá hafa mörg fyrirtæki nýtt sér hlutabótaleið hins opinbera, sem gerir fyrirtækjum kleift að minnka starfshlutfall hjá starfsfólki sínu sem fær atvinnuleysisbætur frá ríkinu á móti.

„Við spáum því að atvinnuleysi verði að meðaltali um 9,6% á þessu ári og fari hæst í 13% um mitt ár en taki að hjaðna þegar líður á árið. Í þessum tölum er ekki starfsfólk á hlutabótaleið stjórnvalda. Skammtímahorfur á vinnumarkaði eru vissulega dökkar en til samanburðar fór atvinnuleysi í kjölfar fjármálahrunsins hæst í 7,6% árið 2010. Hins vegar teljum við að kreppan verði skammvinn og að atvinnuleysi muni mælast 5,8% árið 2021 en vera á svipuðum slóðum og fyrir faraldurinn árið 2022 (3,8%).“

Afar svört mynd af þróun einkaneyslu

mbl.is/​Hari

Ljóst er að einkaneysla muni verða fyrir skelli á næstu fjórðungum. Auk atvinnuleysis benda væntingar landsmanna og kortaveltutölur til þess en þessir hagvísar hafa ekki gefið svartari mynd af þróun einkaneyslu í nærri áratug að því er segir í þjóðhagsspánni.

„Ferðatakmarkanir og samkomubann mun hafa gífurleg áhrif á neyslu næstu mánuðina og má þegar sjá þess merki í helstu hagvísum á borð við væntingavísitölu, kortaveltutölur og atvinnuleysi. Neysla er almennt viðkvæm fyrir óvissu og eru sumir undirliðir einkaneyslunnar líklegri til að verða fyrir meira höggi en aðrir.

Þeir undirliðir sem líklegra er að verði fyrir höggi voru tæplega 50% af allri einkaneyslu árið 2019. Þetta eru liðir á borð við hótel og veitingastaði og ferðir og flutninga. Þróun á einkaneyslu skiptir miklu máli fyrir hagvöxt hérlendis. Síðustu ár hefur einkaneysla vegið þungt til hagvaxtar og skýrt um helming af landsframleiðslunni. Einkaneysla mun óumflýjanlega verða fyrir barðinu á COVID-faraldrinum og gerum við ráð fyrir 5,5% samdrætti einkaneyslu á þessu ári.

Við teljum þó að ástandið verði skammvinnt og einkaneysla taki við sér á nýjan leik árin 2021 (2,4%) og 2022 (3,8%). Góðu heilli standa heimilin mun styrkari stoðum nú en í síðustu kreppu. Skuldir heimila hafa í stórum dráttum haldist hóflegar og sparnaður verið talsverður. Það er því minni hætta en ella á að heimili lendi í bráðum skuldavanda þótt tekjurnar verði fyrir tímabundnu höggi,“ segir í spá Íslandsbanka.

Gengi krónunnar hefur þegar lækkað um 14%

Frá áramótum hefur gengi krónu lækkað um tæp 14% gagnvart helstu gjaldmiðlum. Veikingin átti sér að mestu stað í mars og apríl eftir tiltölulega stöðuga krónu á fyrstu tveimur mánuðum ársins.

Seðlabankinn hefur gripið inn í gjaldeyrismarkað til að hægja á veikingu krónu og koma í veg fyrir tímabundna spíralmyndun. Samanlagt seldi bankinn ríflega 100 m. EUR úr gjaldeyrisforða sínum í mars og apríl. Bankinn hefur hins vegar enn u.þ.b. 6 ma. EUR í forðanum. Þróuninni það sem af er ári svipar til annarra gengislækkunarskeiða á undanförnum árum.

Að undanskildu 2008 þegar hrun varð á gjaldeyrismarkaði virðist takturinn gjarnan vera sá að gengið finnur sér nýtt tímabundið jafnvægi í grennd við 10-15% veikari gildi en giltu fyrir veikingarhrinuna.

Raungengi krónu hefur lækkað nærri 1/5 frá því það fór hæst á toppi ferðamannasveiflunnar fyrir 3 árum. Ísland er því orðið talsvert samkeppnishæfara á alþjóðavísu en var fyrir nokkrum misserum.

„Á þennan kvarða er landið álíka dýrt heim að sækja og það var á fyrri hluta ársins 2016. Það er ekki augljóst að lægra raungengi þurfi til þess að viðhalda utanríkisviðskiptum í jafnvægi þegar fram í sækir og jafnvel mætti færa fyrir því rök að raungengið ætti inni styrkingu á nýjan leik með tíð og tíma.“

Litlar breytingar á verðbólgu

AFP

Eins og áður kom fram hefur gengi krónu veikst töluvert frá áramótum. Að öðru óbreyttu myndi það þýða að verðbólga fari á skrið að því er segir í spá greiningar Íslandsbanka.

„En verðbólga hefur nánast ekki haggast undanfarið og mældist 2,2% í apríl. Við gerum ráð fyrir að hún haldist undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans næstu misserin. Ástæðan fyrir því að verðbólga hefur ekki farið á skrið er að ýmsir aðrir kraftar vega á móti veikingu krónunnar. Olíuverð hefur lækkað heilmikið, hægt hefur á hækkunum íbúðaverðs auk þess sem eftirspurn hefur minnkað sem dregur úr verðþrýstingi.

Útlit er fyrir hóflega verðbólgu næsta kastið. Teljum við að verðbólga muni haldast rétt undir markmiði Seðlabankans á spátímanum, mælast að meðaltali 2,2% á þessu ári, 2,1% að meðaltali á næsta ári en aukast lítillega árið 2022 og mælast að meðaltali 2,3%. Óvissa um verðbólguhorfur er þó mikil og er krónan helsti óvissuþátturinn. Forsendur spár okkar er að krónan haldist nokkuð stöðug í grennd við núverandi gengi. Hins vegar gæti bæði íbúðaverð og slaki í innlendri eftirspurn orðið til þess að halda meira aftur af verðbólgu en hér er spáð.“

Seðlabankinn.
Seðlabankinn. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Það sem af er árinu 2020 hafa stýrivextir Seðlabankans verið lækkaðir um 1,25 prósentur. Meginvextir bankans eru nú 1,75% og hafa aldrei verið lægri. Samhliða hefur bankinn rýmkað lausafjárskilyrði og minnkað kvaðir á banka hvað varðar eigið fé og veðhæfi vegna lánafyrirgreiðslu.

„Við teljum að vextir eigi eftir að lækka frekar og gerum ráð fyrir því að meginvextir verði komnir niður í 0,75% fyrir septemberlok. Í kjölfarið spáum við að stýrivöxtum verði haldið í 0,75% út árið 2020 en taki að hækka að nýju á árinu 2021 samfara batnandi efnahagshorfum. Vextirnir verða þó að okkar mati lágir í sögulegu ljósi út spátímann. Langtímanafnvextir eru nú u.þ.b. 2,5% og langtímaraunvextir 0,3%.

Við gerum ráð fyrir að langtímavextir muni verða lægri að meðaltali á þessu ári en þeir hafa verið síðan vextir voru gefnir frjálsir fyrir rúmum 30 árum. Bæði nafnvextir og raunvextir hækka lítillega á seinni hluta spátímans. Spáum við því að langtímanafnvextir verði í kringum 3,0% og raunvextir nærri 0,8% undir lok spátímans. Langtímaverðbólguálag mun samkvæmt því verða í kringum 2,2% þegar kemur fram á árið 2022. Álagið er nú u.þ.b. 2,2% eftir talsverða lækkun undanfarið,“ segir enn fremur í þjóðhagsspá greiningar Íslandsbanka en hana má lesa í heild hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK