Mesti samdráttur í byggingu húsnæðis í átta ár

Blikur eru á lofti varðandi framboðshlið húsnæðismarkaðsins, að mati hagdeildar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

„Hagdeildin telur að núverandi ástand á byggingarmarkaði geti leitt til skorts og hækkunar fasteignaverðs, en samkvæmt talningu Samtaka iðnaðarins í mars síðastliðnum mældist talsverður samdráttur í íbúðum í byggingu, þá einkum á fyrstu byggingarstigum“, segir í tilkynningu. 

11% færri íbúðir í byggingu og 42% færri á fyrstu byggingarstigum

Á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess eru nú 5.400 íbúðir í byggingu. Eru það um 11% færri íbúðir en vorið 2019 sem er mesti samdráttur sem hefur orðið frá árunum 2011-2012. 42% færri íbúðir eru á fyrstu byggingarstigum á höfuðborgarsvæðinu samanborið við vortalninguna 2019.

Gert er ráð fyrir að 2.100 íbúðir verði  fullgerðar á höfuðborgarsvæðinu og í nágrannasveitarfélögum þess á árinu 2020 en fyrir ári var því spáð að yfir 3.000 nýjar íbúðir yrðu tilbúnar til afhendingar á árinu. Því er gert ráð fyrir því að 30% færri íbúðir verði fullgerðar á árinu en áður var áætlað.

Hagdeildin telur ekki að eftirspurn eftir húsnæði muni minnka jafn mikið á því samdráttarskeiði sem gengið er í garð og á því síðasta.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK