Mesta hækkun íbúðaverðs milli mánaða síðan 2018

Þó kaupsamningum hafi fjölgað milli mánaða, voru þeir engu að …
Þó kaupsamningum hafi fjölgað milli mánaða, voru þeir engu að síður færri en í maí fyrir ári síðan í öllum sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins nema í Garðabæ. mbl.is

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði að meðaltali um 0,8% milli mánaða í maí en hækkunin er talsvert meiri en á síðustu mánuðum, samkvæmt nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands. Um er að ræða mestu hækkun sem hefur mælst milli mánaða síðan í nóvember 2018 þegar íbúðaverð hækkaði um 1%. Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans sem birt var í dag. 

Lægri vextir kunna að hafa ýtt undir eftirspurn eftir húsnæði, samkvæmt Hagsjánni en verð á fjölbýli hækkaði um 0,9% og verð á sérbýli um 0,6%.

„Vextir á íbúðalánum hafa lækkað upp á síðkastið sem kann að hafa aukið svigrúm fólks til íbúðakaupa“, segir í Hagsjánni. 

Hækkun launa meiri en hækkun fasteignaverðs

Raunverð íbúða helst þó nokkurn veginn óbreytt milli mánaða þar sem verð annarra vara en húsnæðis hækkaði með svipuðu móti, eða um 0,9%, milli apríl og maí samkvæmt vísitölu neysluverðs.

„Sé litið til 12 mánaða breytingar á íbúðaverði hefur nafnverð nú hækkað um 3,8% og raunverð 1,2%. Breytingar á raunverði íbúða hafa verið afar hóflegar síðustu mánuði, sérstaklega ef litið er á samhengi þess við aðrar undirliggjandi stærðir sem stýra kaupgetu, svo sem kaupmátt launa. Vísitala launa hækkaði talsvert milli mánaða í apríl sem gerði það að verkum að 12 mánaða breyting kaupmáttar launa mældist 4,5%. Það er talsvert meiri hækkun en á raunverði íbúða sem hefur mælst undir 2% allt frá upphafi árs 2019“, segir í Hagsjánni. 

Aukin viðskipti í Garðabæ

Þar kemur fram að lágir vextir og aukinn kaupmáttur séu þættir sem gætu hafa ýtt undir fasteignaviðskipti í maímánuði.

„Við greindum frá því fyrr í vikunni að þinglýstir kaupsamningar vegna íbúðarhúsnæðis voru nokkuð fleiri í maí en í apríl og því vísbendingar um að íbúðamarkaður sé hægt og rólega að komast í eðlilegt horf eftir samkomubann. Þó kaupsamningum hafi fjölgað milli mánaða, voru þeir engu að síður færri en í maí fyrir ári síðan í öllum sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins nema í Garðabæ.“

Þar virðast viðskipti vera að færast í aukana en aukning mældist þar milli ára bæði í apríl og maí.

„Búast hefði mátt við minni hreyfingu á fasteignamarkaði í kjölfar útbreiðslu Covid-19 þar sem almenn óvissa getur gert það að verkum að fólk vilji frekar halda að sér höndum, en hagfelld skilyrði til húsnæðiskaupa hafa eflaust hvatt marga sem voru í fasteignakaupahugleiðingum til viðskipta“, segir í Hagsjánni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK