Íslenskur spurningaleikur rýkur upp listana

Þorsteinn B. Friðriksson, forstjóri Teatime Games.
Þorsteinn B. Friðriksson, forstjóri Teatime Games. mbl.is/Árni Sæberg

„Maður þorði varla að vona að þetta myndi ganga svona vel,“ segir Þorsteinn B. Friðriksson, forstjóri og einn stofnenda Teatime Games, við mbl.is. Fyrirtækið gaf út símaleik fyrir þremur dögum, sem hefur þotið upp vinsældalista í App Store víða um heim. Hann er í sautjánda sæti yfir alla leiki í Bandaríkjunum og enn ofar á listum í Evrópulöndum.

Leikurinn heiti Trivia Royale og er síst ósvipaður hinum fræga QuizUp, sem Þorsteinn kom á laggirnar ásamt öðrum fyrir sjö árum og fór sigurför um heiminn. Trivia Royale er þannig spurningaleikur en þó með nýrri útfærslu.

Slíkt „royale“-form er á vinsælustu tölvuleikjum heims þessi dægrin og felst í að skella risastórum hópum spilara saman í eina hrúgu og sjá hver stendur eftir. Þess konar stafrænir hungurleikar eru það sem fólkið vill, að sögn Þorsteins. Sjá nýjan Call of Duty og Fortnite.

Búinn að fara upp og niður í þessum bransa

QuizUp reis og féll og var selt til Bandaríkjanna 2016. Teatime var stofnað 2017 og hefur síðan gefið út nokkra leiki, sem hafa gengið „misjafnlega“ en Þorsteinn kveðst hafa lært af hverjum og einum. 

Eins og hann segir: „Maður er aðeins búinn að fara upp og niður í þessum bransa og þetta er ákveðinn rússíbani alltaf.“

Og heldur Þorsteinn að hann sé með eitthvað í höndunum núna? 

„Ég er alveg örugglega með eitthvað í höndunum [m. áherslu á eitthvað], en við erum bara nýbúin að gefa út leikinn og tölurnar eru alveg frábærar en ég er hræddur við að hrósa sigri strax. Við látum næstu daga líða fyrst. Þetta eru svo sannarlega góðar vísbendingar og vinsældir leiksins eru lofandi,“ segir Þorsteinn. 

20 að störfum á Laugavegi

Starfsmenn Teatime eru í kringum 20 á skrifstofunni á Laugavegi en þá eru ekki taldir með spurningahöfundar, sem flestir eru í Bandaríkjunum og starfa sem verktakar fyrir leikinn. Sömuleiðis eru forritarar að störfum víða um heim við smáforritið.

Þorsteinn segir landslagið í leikjabransanum gerbreytt frá því sem var þegar QuizUp kom út og að efasemdir hefðu komið fram um hvort lítil stofa eins og Teatime væri fær um að koma á fót vinsælum leik á alþjóðamarkaði. Þær séu líklega að reynast tilefnislausar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK