Leggur til að VR dragi yfirlýsingu til baka

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Hari

Ragnar Þór Ingólfsson hyggst leggja það til við stjórn VR að fyrri yfirlýsing um sniðgöngu hlutafjárútboðs Icelandair verði dregin til baka.

„Ekki vegna þess að það samdist við flugfreyjur og ekki vegna þess að samningsrétti og framtíð stéttarfélaga var bjargað fyrir horn heldur vegna þess að við erum í vinnu fyrir ykkur en ekki öfugt,“ skrifar Ragnar Þór, formaður VR, í bréfi til félagsmanna VR.

Í bréfinu segir Ragnar að stór orð hafi verið látin falla um málefni Icelandair, þau hafi verið túlkuð á mismunandi vegu og oft á tíðum verið afvegaleidd frá kjarna málsins.

„Til að taka af allan vafa hafa skrif mín og yfirlýsingar stjórnar VR verið í nafni þeirra stöðu sem okkar félagsmenn eru í þó vissulega megi álykta að þær tengist baráttu annarra stétta innan félagsins,“ skrifar Ragnar og að þó beri að nefna að öll hreyfingin, og sérstaklega félögin innan ASÍ hafi farið mjög harkalega fram, sameinuð, þegar samningsréttinum var ógnað. 

„Ég vil ekki hugsa þá hugsun til enda ef forsvarsmenn atvinnulífsins munu komast báðum megin borðs eða geta sniðgengið stéttarfélögin með því að semja við önnur sem eru hliðhollari stefnu þeirra og áherslum.“

Harmar upplifun félagsmanna

Skrifar Ragnar að sér hafi borist póstar frá félagsmönnum þar sem þeir lýsi óánægju sinni með framgöngu hans, að hann sé að vinna fyrir aðra en félagsmenn VR og upplifun sinni á að formaður félagsins væri að beita sér fyrir því að Icelandair fari í þrot.

Ragnar segir hvorki hann né stjórn VR hafna yfir gagnrýni og að honum þyki leitt að upplifun félagsmanna skuli vera með þessum hætti. „Til að taka af allan vafa þá viljum við bjarga félaginu. Með öllum ráðum munum við beita okkur fyrir því að það verði gert,“ skrifar Ragnar, en að hann hafi miklar efasemdir um að það sé gerlegt með núverandi stjórn félagsins við völd.

„Ég mun leggja það til við stjórn VR að fyrri yfirlýsing um sniðgöngu útboðs verði dregin til baka. Ekki vegna þess að það samdist við flugfreyjur og ekki vegna þess að samningsrétti og framtíð stéttarfélaga var bjargað fyrir horn heldur vegna þess að við erum í vinnu fyrir ykkur en ekki öfugt. Einnig harma ég það mjög að félagsmenn VR sem starfa eða störfuðu hjá Icelandair upplifi það þannig að félagið hafi ekki gengið harðar fram fyrir ykkar hönd þegar hvað harðast var að ykkur sótt.“

„Ég er sannfærður um að Icelandair lifi þessar hremmingar af og rísi upp þó erfitt sé að spá um það í dag hvernig það verður nákvæmlega á endanum gert.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka