SA og SAF styðja ríkisábyrgð til Icelandair

„Icelandair skiptir því ekki einungis miklu máli fyrir öll sem …
„Icelandair skiptir því ekki einungis miklu máli fyrir öll sem starfa í ferðaþjónustu heldur fyrir þjóðina alla. Kennitöluflakk getur aldrei verið hluti af strategíu með svo mikilvæg innviði,“ segir í umsögn félaganna tveggja. mbl.is/Árni Sæberg

Samtök atvinnulífsins og Samtök ferðaþjónustunnar vilja ekki að neinu verði breytt í frumvarpi sem lýtur að því að rík­is­ábyrgð verði veitt á tæp­lega 15 millj­arða króna láni til Icelandair. Hvor tveggja samtökin styðja frumvarpið þrátt fyrir að þau hafi „alltaf verið þeirrar skoðunar að afskipti hins opinbera af atvinnulífinu megi ekki vera of mikil“.

Þetta kemur fram í sameiginlegri umsögn samtakanna tvennra sem telja að með því að ríkið veiti ábyrgð á láni í stað þess að leggja til lánsfé sé áhætta skattgreiðenda af stuðningi við Icelandair lágmörkuð. 

Í umsögninni segir að tvær hliðar séu á ríkisstuðningi eða „afskiptum hins opinbera“.

„Annars vegar að laga- og skattaumhverfi megi ekki vera of íþyngjandi fyrir atvinnulífið til að draga ekki um of úr samkeppnishæfni þess. Hins vegar að forðast eigi að beita ívilnunum fyrir einstök fyrirtæki og atvinnugreinar, heldur skapa almennt gott rekstrarumhverfi.“

Bein áhrif ferðaþjónustu einna mest hérlendis

Í umsögn sinni fara samtökin stuttlega yfir þá „fordæmalausu stöðu sem íslenskt efnahagslíf stendur nú frammi fyrir á meðan við göngum í gegnum einar mestu efnahagsþrengingar sögunnar. Á heimsvísu hefur faraldurinn haft mest áhrif á ferðaþjónustu og er Ísland þar engin undantekning. Bein áhrif ferðaþjónustu á efnahag eru einna mest hér á landi sé horft til annarra vestrænna ríkja“.

Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, og Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF, …
Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, og Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF, skrifa undir umsögnina. Samsett mynd/mbl.is

Í umsögninni er tekið fram að Icelandair sé eina íslenska flugfélagið sem sinni áætlunarflugi með farþega til og frá landinu. Reynslan eftir gjaldþrot WOW air sýni að mjög langan tíma geti tekið að koma rekstri á legg að nýju eftir gjaldþrot flugfélags.

„Þetta á sérstaklega við um tíma eins og þessa. Icelandair er að tvennu leyti mjög kerfislega mikilvægt fyrirtæki fyrir Ísland. Annars vegar sem hluti af mikilvægum samgönguinnviðum fyrir Íslendinga til að gefa þeim kost á að ferðast til og frá landinu. Hins vegar flytur enginn fleiri ferðamenn til landsins. Afar ólíklegt er að erlend flugfélög myndu sinna þessum hlutverkum með sama hætti í fjarveru íslensks flugfélags. Líkur eru á að áfangastöðum myndi fækka og flugtíðni minnka verulega. Auk þess skapar það fleiri störf að flugfélag hafi bækistöðvar sínar hér á landi.“

Kennitöluflakk megi ekki vera hluti af áætlun

Í umsögninni segja SA og SAF að ferðaþjónustan sé ein af mikilvægustu atvinnugreinum þjóðarinnar. Icelandair hafi leikið lykilhlutverk í þeirri grein frá upphafi. 

„Ætla má að komi til gjaldþrots [Icelandair] muni það hafa í för með sér verulega röskun á starfsemi ferðaþjónustu. Þó að félagið yrði endurreist í annarri mynd yrði það að líkindum langvinnt ferli á viðkvæmum tíma fyrir ferðaþjónustu þegar skjót viðbrögð við breyttum aðstæðum munu skipta höfuðmáli. Icelandair skiptir því ekki einungis miklu máli fyrir alla sem starfa í ferðaþjónustu heldur fyrir þjóðina alla. Kennitöluflakk getur aldrei verið hluti af strategíu með svo mikilvæga innviði. “

Samtökin telja að með frumvarpinu eins og það stendur í dag sé því tryggt að ríkið verði síðast inn og fyrst út.

„Sú útfærsla á stuðningnum er því til fyrirmyndar. Í ljósi ofangreinds, þeirra fordæmalausu aðstæðna sem nú eru í heiminum, kerfislegs mikilvægis Icelandair og góðrar útfærslu á málinu, styðja samtökin [frumvarpið] og hvetja til þess að það verði klárað óbreytt,“ segir í umsögninni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK