Aldrei aftur í biðröð eftir lyfjum til einskis

Björgvin Brynjólfsson verkefnastjóri stafrænna lausna hjá Lyfju og Sigríður Margrét …
Björgvin Brynjólfsson verkefnastjóri stafrænna lausna hjá Lyfju og Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri. Ljósmynd/Aðsend

Lyfja, sem rekur á fimmta tug apóteka um allt land, hefur gefið út app sem ætlað er að auðvelda kaup á lyfjum og um leið bæta öryggi við kaupin.

Í Lyfju appinu getur viðskiptavinur gengið sjálfvirkt frá kaupum á lyfjum og fengið þau send heim án aukakostnaðar í helstu þéttbýliskjörnum landsins, að því er fram kemur í tilkynningu frá fyrirtækinu.

„Einnig getur viðskiptavinurinn valið að sækja pöntunina í næsta apótek Lyfju í gegnum flýtiafgreiðslu sem tryggir hraðari afhendingu en þekkst hefur og eru afhendingarstaðirnir apótek Lyfju um land allt,“ segir í tilkynningunni.

Umboð mikið í umræðunni

Í appinu sé að auki hægt að fá yfirlit yfir allar lyfjaávísanir í rauntíma og upplýsingar um öll lyf, þ.e. virk innihaldsefni, ráðlagða notkun, aukaverkanir og milliverkanir. 

Ekki síst bjóði appið upp á kaup og afhendingu lyfja fyrir aðra í gegnum rafrænt umboð.

„Umboð til verslunar ávísanaskyldra lyfja hafa verið mikið í umræðunni en með Lyfju appinu hefur verið sérsmíðuð virkni sem gerir viðskiptavinum kleift að sækja og veita umboð til kaupa og afhendingar á lyfjum,“ segir í tilkynningunni.

„Umboð með þessum hætti eru þau fyrstu sinnar tegundar hér á landi þar sem notandi skrifar rafrænt undir umboð þess efnis að annar aðili geti séð yfirlit ávísaðra lyfja og verslað þau fyrir hans hönd.“

Sigríður Margrét segir að í appinu felist einfaldasta og öruggasta …
Sigríður Margrét segir að í appinu felist einfaldasta og öruggasta leiðin til að kaupa lyf á Íslandi. Ljósmynd/Aðsend

Áhersla á rekjanleika heimsendinga

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Lyfju, segir að með appinu vilji Lyfja bjóða upp á betri þjónustu og einfalda lyfjakaupin.

„Öryggi er haft í fyrirrúmi, en með notkun rafrænna skilríkja, rafrænu umboði og öruggri heimsendingu viljum við leggja okkar lóð á vogarskálarnar í þeim efnum“, er haft eftir Sigríði Margréti.

Mikil áhersla sé lögð á rekjanleika heimsendinga en hægt sé að fylgjast með sendingum frá því að þær eru afgreiddar í apóteki þangað til þær eru komnar í hendur viðskiptavina.

Að auki skráir appið sjálfkrafa niður GPS-punkta fyrir þá leið sem farið er með sendinguna, heldur utan um rithandarsýni viðtakanda og vistar upplýsingar um viðtakanda á öruggan hátt.

Einfaldasta og öruggasta leiðin á Íslandi í dag 

Til að styðja við það flókna kaupferli sem verslun með ávísunarskyld lyf eru, hafi Lyfja einnig smíðað spjallvirkni í appinu og komið upp þjónustuveri sem til staðar sé fyrir viðskiptavini. Nálgast megi ráðgjöf í gegnum netspjall frá sérfræðingum Lyfju en sú þjónusta sé einnig í boði á vefsíðu Lyfju. Aðgengi að lyfjaupplýsingum sé þá gert hátt undir höfði.  

„Við getum með sanni sagt að þetta er einfaldasta og öruggasta leiðin til að kaupa lyf á Íslandi í dag. Það er mikilvægt að viðskiptavinir okkar geti á einum stað fengið aðgang að lyfjaávísunum sínum, öllum lyfjum sem eru í boði á Íslandi, upplýsingar um virkni þeirra, verð, áhrif og aukaverkanir,“ segir Sigríður Margrét.

„Ef viðskiptavini vantar ráð eða upplýsingar þá hafa þeir aðgang að sérfræðingum Lyfju í gegnum spjall í smáforritinu. Þú þarft aldrei að bíða aftur í röð í apóteki til þess eins að fá upplýsingar um að lyfið þitt sé ekki til.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK