Landsbanki hækkar óverðtryggða íbúðalánsvexti

Landsbankinn.
Landsbankinn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landsbankinn hefur ákveðið að hækka fasta óverðtryggða íbúðalánsvexti um 0,15 til 0,2 prósentustig frá og með deginum í dag. Hækka fastir vextir til þriggja ára um 0,15 prósentustig og eru lægstu slíkir vextir nú 4,05%, en fastir vextir til fimm ára hækka um 0,2 prósentustig og eru lægstu slíkir vextir nú 4,5%. Breytilegir vextir á óverðtryggðum íbúðalánum verða óbreyttir, eða 3,5%.

Í tilkynningu á heimasíðu bankans kemur fram að vaxtahækkunina núna megi aðallega rekja til þess að ávöxtunarkrafa sértryggðra skuldabréfa, sem boðin eru út á markaði og bankinn fjármagnar íbúðalán með, hafi hækkað umtalsvert frá síðustu vaxtaákvörðun.

Þá hækka fastir vextir til 36 mánaða vegna bíla- og tækjafjármögnunar um 0,15 prósentustig. Aðrir útlánsvextir bankans eru óbreyttir. Fastir innlánsvextir til 36 mánaða hækka um 0,15 prósentustig og fastir innlánsvextir til 60 mánaða hækka um 0,20 prósentustig. Þá verða breytingar á innlánsvöxtum gjaldeyrisreikninga í sterlingspundum, Kanadadal og norskri krónu.

Íslandsbanki hækkaði fasta vexti sína á óverðtryggðum íbúðalánum og verðtryggðum íbúðalánum með breytilegum vöxtum í lok síðasta mánaðar, en þá fóru lægstu vextir í 4,1% á lánum með þriggja ára fasta vexti og í 4,4% á lánum með fimm ára fasta vexti.

Arion banki hefur ekki breytt vaxtakjörum hjá sér, en þar eru fastir óverðtryggðir vextir til þriggja ára á íbúðalánum 4,49%.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK