Félag Friðberts kaupir allt hlutafé í Heklu

Friðbert Friðbertsson.
Friðbert Friðbertsson. Ljósmynd/Aðsend

Fyrr í þessari viku var gengið frá samkomulagi þess efnis að félagið Riftún ehf. kaupi helmingshlut danska félagsins Semler í bílaumboðinu Heklu. Riftún ehf. er í eigu Friðberts Friðbertssonar, forstjóra Heklu, sem fyrir átti helminginn í fyrirtækinu á móti Semler.

Friðbert segir að breytt eignarhald fyrirtækisins hafi verið til skoðunar um nokkurt skeið og að þessi lending hafi orðið enda rími hún við þá framtíðarsýn Semler að einbeita sér fremur að bílamarkaðnum í Danmörku en fyrirtækið er með umboðið fyrir bifreiðar sem framleiddar eru undir hatti Volkswagen-samsteypunnar, þ.e. Volkswagen, Audi, Porsche, SEAT og Skoda.

„Semler, sem hefur átt hlut í félaginu síðan 2013 hefur verið góður samstarfsfélagi og þetta hefur verið ánægjulegur tími,“ segir Friðbert.

Hann segir spennandi tíma fram undan hjá Heklu, ekki síst í tengslum við að fyrirtækið hefur á undanförnum misserum kynnt margar tegundir nýrra rafbíla á markaðinn.

„Á næsta ári munu nýir rafbílar bætast í hópinn og margar áhugaverðar nýjungar líta dagsins ljós. Ísland er leiðandi í innleiðingu rafbíla og sá reynslumikli og öflugi hópur sem starfar hjá fyrirtækinu er reiðubúinn að takast á við nýja tíma.“

Friðbert segir að kaupverð hlutarins af Semler sé trúnaðarmál. Arion banki og Lögfræðistofan Landslög voru ráðgefandi við söluferlið. Fyrirtækið velti um 15 milljörðum króna á árinu sem nú er að líða.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK